Mega heita Dante og Rorí

Börn mega heita Dante og Rorí en ekki Jean.
Börn mega heita Dante og Rorí en ekki Jean. mbl.is/RAX

Mannanafnanefnd hefur samþykkt karlsmannsnafnið Dante og kvenmannsnafnið Rorí en hafnað því að íslenskar stúlkur megi heita Jean.

Samkvæmt nýjasta úrskurði nefndarinnar tekur eiginnafnið Dante íslenskri beygingu í eignarfalli, Dantes. Mannanafnanefnd telur sig ekki geta fullyrt að eiginnafnið gangi gegn skilyrðum 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og er nafnið því samþykkt og hefur verið fært á mannanafnaskrá.

Í úrskurðarorðum nefndarinnar um kvenmannsnafnið Rorí segir að nafnið taki íslenskri beygingu í eignarfalli, Roríar, og teljist að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Nefndin tók einnig fyrir beiðnir um nöfnin Matta og Linddís og voru þau bæði samþykkt.

Nefndin hafnar hins vegar millinafninu Auðberg. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, eru nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð í íslensku máli sem annaðhvort eiginnöfn karla eða kvenna, ekki heimil sem millinöfn. Nafnið Auðberg hefur verið notað sem eiginnafn karla í íslensku. Á millinafnið Auðberg er því ekki heimilt að fallast, samkvæmt úrskurði nefndarinnar.

Í úrskurðarorðum um kvenmannsnafnið Jean, sem nefndin hafnar, segir m.a. þó átta konur hafi verið skráðar með eiginnafnið Jean á árabilinu 1926-2006, stangist nafnið á við íslenskar hljóðskipunarreglur sem finna má í lögum frá árinu 1996. Þannig eru tsj, dsj og djí ótæk hljóðasambönd í íslensku. Ef nafnið Jean er borið fram ,,dsjín“ eða ,,djín“ stangast sá framburður á við íslenskar hljóðskipunarreglur. Ef nafnið er borið fram samkvæmt stafanna hljóðan stangast það einnig á við íslenskar hljóðskipunarreglur því að hljóðasambandið jea kemur aldrei fyrir í íslenskum orðum. Nafnið Jean brýtur þannig í bág við skilyrði nr. 2 í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki hægt að fallast á það.

Úrskurður mannanafnanefndar í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert