„Plúsarnir í heild vega miklu meira heldur en mínusarnir,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag en heildaraflamark fyrir næsta fiskveiðiár hefur nú verið ákveðið.
Ákvörðun um heildaraflamark fyrir fiskveiðiárið 2012-2013 var kynnt í morgun. Aflamark þorsks var aukið um tæp 20 þúsund tonn. Hinsvegar var aflamark ýsu minnkað umtalsvert.
„Það eru góðar fréttir af þorskinum. Erum nú að uppskera af því að hafa tekið strangt á málum og hefur nú tekist að byggja þorskstofnin myndarlega upp. Það má segja að nú sé eitthvert besta ástand og bestu horfur um áratugaskeið. Aukning núna er upp á tæp 20 þúsund tonn er auðvitað mjög verðmæt. Einnig eru góð tíðindi núna af karfanum, síldinni og löngu. Plúsarnir í heild vega miklu meira heldur en mínusarnir sem eru fyrst og fremst ýsan. Þetta er ávísun á talsverðan verðmætisauka,“ segir Steingrímur.
Hafró lagði í vor til að aflamark ýsu yrði 32 þúsund tonn en ákvörðun sjávarútvegsráðherra hljóðar upp á 36 þúsund tonn. „Það var niðurstaðan að það væri mjög erfitt að fara svo bratt niður. Við erum að minnka kvótann á ýsu um 9. þús tonn það er umtalsvert. Við ætlum að taka þetta í tveimur skrefum. Taka veiðarnar niður í ráðgjöf í veiðireglu sem hugsanlega kemur á næsta ári. Við erum að taka meira en 2/3 af þeim skammti núna og það mun taka verulega í. Einnig þarf að skoða hvernig menn standa að ýsuveiðum því það stefnir jafnvel í að menn verði meira og minna að líta á ýsuna sem meðafla. Þetta mun kalla á verulega aðlögun fyrir útgerðina. Þetta er töluverð skerðing en annað hefði verið óábyrgt.“