Steingrímur ánægður með nýjar tölur um atvinnuleysi

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þetta er mjög myndarleg lækkun. Það heldur áfram mjög góð þróun. Atvinnuleysi fer í 4,8 % í júní og það er mjög góður taktur í mjög hraðri minnkun atvinnuleysis,“ segir Steingrímur J. Sigfússon ráðherra. „Það gengur algerlega eftir það sem við bjuggumst við, að þegar slakinn á vinnumarkaðnum var unninn upp þá myndi atvinnuleysi minnka hraðar í takt við hagvöxtinn og fjölgun nýrra starfa vera örari. Því nú er í raun búið að vinna upp þann slaka sem kom.“

Steingrímur segir að ýmislegt hafi gerst í atvinnulífinu undanfarin misseri. Margir hafi minnkað við sig vinnu, hætt að vinna yfirvinnu og þar fram eftir götunum. „Þegar hagkerfið leggur af stað aftur er ákveðin tímatöf í því áður en efnahagsbatinn fer að skila sér að fullu í minnkun atvinnuleysis og fleiri nýjum störfum.  Nú er það tekið að gerast mjög myndarlega og 4,8% atvinnuleysi í júní er langlægsta tala sem við höfum séð síðan nokkru fyrir hrun,“ segir Steingrímur.

„Ég spái því að við séum að komast á betra ról með atvinnustigið en við vorum á samdráttarskeiðinu 1990-1995. Ef ég man rétt var atvinnuleysið í júní 1995 heldur meira en það er núna. Sem sýnir að við erum að ná verulegum árangri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert