Umhverfisverðlaun Rangárþings ytra voru veitt í gær við hátíðlega athöfn á Hellu. Það er samgöngu-, umhverfis- og hálendisnefnd Rangárþings ytra sem veitir verðlaunin árlega og eru þau veitt í fjórum flokkum.
Að þessu sinni voru það Theresa Lisbeth Sundberg og Kristinn Scheving á Ártúni 6 á Hellu sem fengu umhverfisverðlaun 2012 fyrir fallegan garð í þéttbýli.
Umhverfisverðlaun fyrir snyrtilegt lögbýli, þar sem stundaður er landbúnaður, fengu ábúendur á Selsundi á Rangárvöllum, Sverrir Haraldsson, Guðmundur Gíslason og Björk Rúnarsdóttir.
Umhverfisverðlaun fyrir fallega lóð í dreifbýli og fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækis fengu ábúendur á Stokkalæk á Rangárvöllum, Inga Ásta Hafstein og Pétur Kr. Hafstein, og Selið, sem þau hjón reka á Stokkalæk.
Viðkomandi umhverfisverðlaunahafar munu á næstu dögum vera með opið fyrir gesti part úr degi þar sem fólki gefst kostur á að bera þessar snyrtilegu og fallegu lóðir augum.