Nokkrir helstu forystumenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa af því áhyggjur að þeim muni ekki takast að koma upplýsingum um mikinn árangur ríkisstjórnarinnar til skila í komandi kosningabaráttu og vísa í því efni til fjölmiðla og efnistaka þeirra.
Höfundar bréfsins eru þau Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Hildur Traustadóttir og Sóley Tómasdóttir.
Fjórmenningarnir fara ekki í grafgötur með að þeir óttist að sá árangur sem þeir telja að ríkisstjórnin hafi náð muni ekki hljóta náð fyrir augum fjölmiðla, þegar farið verður yfir verk ríkisstjórnarinnar í kosningabaráttunni.
„Eftir tæpt ár verða kosningar til Alþingis. Í þeim munum við leggja okkar verk í dóm kjósenda. Við kvíðum ekki þeim dómi ef umræðan verður málefnaleg og byggð á staðreyndum um það sem við hefur verið að glíma og þann árangur sem sannanlega hefur náðst. Hitt er ljóst að það mun kosta mikla baráttu að koma upplýsingum um þá hluti til skila.“
Hefur lítil áhrif á vel reknar útgerðir
Þá fullyrða fjórmenningarnir að nýsamþykkt veiðigjöld muni ekki hafa neikvæð áhrif á rekstur stöndugra sjávarútvegsfyrirtækja.
„Kostnaður sjávarútvegsfyrirtækja af gjaldinu mun hvorki breyta rekstrarskilyrðum farsælla sjávarútvegsfyrirtækja né hafa neikvæð áhrif á laun sjómanna og fiskvinnslufólks. Gjöldin miðast við þann arð sem verður eftir hjá útgerðarfyrirtækjum þegar búið er að taka tillit til kostnaðar við fjárfestingu og laun starfsfólks.“
Miklar annir forystumanna
Þá kemur fram í máli fjórmenninganna að kjörtímabilið hafi verið annasamt og reynt á þá sem stóðu í brúnni.
„Það er komið á fjórða ár frá því að Vinstrihreyfingin - grænt framboð tók við stjórnartaumunum í landinu ásamt Samfylkingunni. Þessi ár hafa verið annasöm, enda beið okkar fjöldi krefjandi verkefna eftir langa setu hægriaflanna við stjórn landsins og afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu, hrunið sem var hársbreidd frá því að kosta okkur efnahagslegt sjálfstæði og setti forsendur velferðarsamfélagsins í uppnám. Við slíkar aðstæður er hættan sú að stundum verði það útundan að rækta hin lífsnauðsynlegu samskipti við grunneiningar flokksins. En um leið undirstrika slíkar aðstæður mikilvægi reglulegra funda stjórnar, flokksráð, svæðisfélaga og kjördæmisráða til samráðs og umræðu.“
ESB-málin í óvissu
Athygli vekur að fjórmenningarnir taka fram að óvissa sé um hvenær aðildarviðræðunum við Evrópusambandið ljúki.
En Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur gert kröfu um að megindrættir samningaviðræðnanna liggi fyrir áður en gengið verður til þingkosninga.
Um þetta segir orðrétt í bréfinu:
„Þá er ljóst að Evrópusambandsumsóknin hefur reynt á flokksmenn alla og enn er ekki fullljóst hvenær eða hvernig efnisleg niðurstaða liggur nógu skýrt fyrir til að þjóðin geti tekið af skarið.“
Grein fjórmenninganna má nálgast hér en hún var send öllum félagsmönnum í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði.