Vill loka Kirkjustræti

Forseti Alþingis er afar ósáttur við tillögu sem gerir ráð fyrir tæplega 10.000 fermetra hóteli í gamla Landsímahúsinu við Kirkjustræti. Hún segir að hótelið þrengi mjög að þinginu. „Persónulega vildi ég að Kirkjustrætið væri lokað [fyrir bílaumferð]“ segir Ásta R. Jóhannesdóttir.

„Ég er mjög ósátt við þessa tillögu og andvíg henni, sérstaklega sem snýr að Alþingi. Það er verið að gera ráð fyrir miklum byggingum og stóru hóteli alveg upp að Alþingisreitinum,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, um vinningstillögu sem gerir ráð fyrir tæplega 10.000 fermetra hóteli í gamla Landsímahúsinu.

Hún bendir á að umferð um Kirkjustræti sé nú þegar mikil. Þá séu fjölmörg hótel og gistiheimili í nágrenninu. 

Þrengir að húsum

„Á annatímum er vart hægt að komast hér að þinghúsinu vegna bílaumferðar til þessara gististaða. Og nú er gert ráð fyrir að aðgangur að mjög stóru hóteli verði hérna beint fyrir framan skrifstofuhúsnæði þingins. Sú bygging sem þar á að koma fram fyrir símahúsið núverandi mun þrengja verulega að þessum gömlu fallegu húsum sem við erum búin að gera upp hér við götuna,“ segir hún.

„Við munum auðvitað gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist sem boðað er í þessum tillögum hvað Kirkjustrætið varðar,“ segir hún, enda Alþingi hagsmunaðili gagnvart þessu skipulagi.

Ber að veita Alþingi rými

Ásta segir að borgaryfirvöldum beri að veita löggjafarsamkundunni ákveðið rými. „Það ber að veita okkur það rými sem þarf sem slíkri stofnun. Það gera aðrar þjóðir í kringum okkur,“ segir hún.

Aðspurð segir Ásta að hún sé búin að skrifa borgarstjóra Reykjavíkur bréf þar sem athugasemdirnar koma fram, en bréfið var sent í síðustu viku. Hún tekur fram að hún hafi fundað með borgaryfirvöldum áður en samkeppnin hófst.

Þá segir hún að málið verði tekið á fundi forsætisnefndar Alþingis í ágúst. „Ég veit að forsætisnefndarmenn hafa miklar áhyggjur af gangi mála og sérstaklega var mönnum brugðið þegar þeir sáu tillöguna, því að hún þrengdi það mikið að þinginu,“ segir hún.

Uppbyggingunni skipt í þrjá áfanga

Höfundar vinningstillögunnar í samkeppni um uppbyggingu í Kvosinni í Reykjavík eru ASK arkitektar ehf., Þorsteinn Helgason og Gunnar Örn Sigurðsson.

Í tillögunni er uppbyggingunni skipt í þrjá áfanga en gert er ráð fyrir tæplega 10.000 fermetra og 159 herbergja hóteli í Landssímahúsinu og nýbyggingu sem mun rísa við Kirkjustræti. Aðalinngangur hótelsins mun liggja að strætinu en frá veitingasal hótelsins verður innangengt í gamla Nasa sem verður endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Þá er gert ráð fyrir að í Vallarstræti verði fjölbreytt verslunar- og þjónustuhúsnæði og að með nýbyggingu á syðri hluta Ingólfstorgs, þar sem Hótel Ísland stóð, fái strætið heildstæðara götuform.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert