Byggð reist á hættusvæðum

„Ég er ekki háður styrkjakerfi og er ekki hluti af háskólakerfinu og þess vegna get ég rifið kjaft,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. „En marga kollega mína gruna ég um að passa mjög vel hvað þeir segja vegna þess að þeir starfa innan kerfisins í litlu landi. Þá er stutt í sjálfsritskoðun.“

Haraldur segist ekki sjá neitt sem bendi til að gos verði fljótlega, en segir að verið sé að reisa byggð á hættusvæðum. „Ég hef bent á Krísuvíkursvæðið, sem ástæða er til að hafa áhyggjur af en þar er sprungukerfi sem Heiðmörk liggur á og Straumsvík er byggð nærri sprungukerfi og ung hraun eru í Hafnarfirði og í grennd við Njarðvíkur, ættuð úr eldstöðvum á Reykjanesi. Það er nokkurn veginn regla að þar sem ungt hraun er mun yngra hraun koma ofan á það.

Ytri mörk höfuðborgarsvæðisins eru að færast upp að Elliðavatni og Heiðmörk og í Hafnarfirði eru þau að færast yfir í Kapelluhraunið, þannig að verið er að reisa byggð á hættusvæðum. Stjórnmálamennirnir lifa fyrir kjörtímabilið og hugsa sem svo: Það gerist ekkert meðan við erum á lífi. Sem getur verið alveg rétt.

Þetta er sennilega allt í lagi varðandi verksmiðjuna í Straumsvík því það þarf hvort eð er að byggja nýja verksmiðju eftir fimmtíu ár, þá verður núverandi verksmiðja orðin gamaldags, menn vilja rífa hana og byggja nýja og þá er svo sem allt í lagi að hraunið taki hana.

En það er nokkuð annað mál ef þú átt einbýlishús í útjaðri Hafnarfjarðar eða uppi við Elliðavatn, sem þú varst ekki bara að byggja fyrir þig heldur líka fyrir afkomendur þína. Þér þætti sárt ef það færi undir hraun.

Veðurstofan og vísindamenn við Háskóla Íslands fylgjast vel með sem þýðir að ef til vill verður hægt að sjá fyrir gos á þessum svæðum skömmu áður en þau hefjast en það er búið að byggja á svæðunum. Það verður hægt að bjarga fólkinu og kannski kæliskápnum og húsgögnum en það verður aldrei hægt að byggja aftur á sumum af þessum svæðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert