„Það orðaval sem þarna er notað er eins og hörðustu ESB-sinnarnir í forystu Samfylkingarinnar nota til þess að réttlæta áframhaldandi aðlögun og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég hygg að mörgum sé nóg boðið í grasrót flokksins, að ekki sé talað um þá sem hafa yfirgefið flokkinn vegna þessa máls,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, í tilefni af bréfi fjögurra forystumanna í VG til flokksmanna.
Jón telur einsýnt að með þeirri afstöðu sem komi fram í bréfinu hafi forysta VG fjarlægst grasrótina og grunnstefnu flokksins.
„Þetta er staðfesting á því að forysta flokksins er höll undir aðild að Evrópusambandinu. Það gefur augaleið að ég er fullkomlega andvígur þessari nálgun. Fyrir félaga í Vinstri grænum ætti það að vera löngu ljóst – og það liggur fyrir í samþykktum flokksins – að það á ekki að þurfa að kíkja í pakkann til þess að komast að því hvað í aðild felst. Þjóðin er meira en tilbúin til að hætta ESB-vegferð ríkisstjórnarinnar.
Vinstri hreyfingin - grænt framboð var m.a. stofnuð til að berjast gegn aðild að ESB. Svona ummæli ganga því þvert á stefnu flokksins og vilja grasrótarinnar. Ummælin komu því mörgum á óvart og hafa margir í grasrótinni haft samband við mig vegna málsins. Ég hef, ásamt Atla Gíslasyni, flutt þingsályktunartillögu um að Alþingi afturkalli ESB-umsóknina. Tillagan verður borin upp á ný í haust og þá kemur í ljós hvar afstaða manna til stefnu VG og ESB-aðildar liggur,“ segir Jón.