Stjórnvöld á Írlandi telja að síðasta tilboð Evrópusambandsins og Norðmanna til Íslendinga og Færeyinga um 7,5% og 8% hlutdeild í árlegum makrílkvóta í Norður-Atlantshafi eigi ekki lengur við og beri að draga til baka.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem sendinefnd írskra stjórnvalda vegna fundar ráðherraráðs Evrópusambandsins næstkomandi mánudag 16. júlí hefur sent ráðinu. Fjallað er um málið á heimasíðu samtaka norskra útvegsmanna Fiskebat.no og er minnisblað sendinefndarinnar birt þar í viðhengi.
Bæði er í minnisblaðinu vísað til þess að Íslendingar og Færeyingar hafi hafnað umræddu tilboði á síðasta samningafundinum í makríldeilunni í febrúar síðastliðnum en einnig til þess að makríl sé ekki lengur að finna í sama mæli í íslensku efnahagslögsögunni í ár og verið hefur undanfarin ár. Tilboðið hafi þá verið of rausnarlegt.
Lögð er áhersla á að svo virðist sem sókn makrílstofnsins inn í íslensku lögsöguna hafi einungis verið tímabundið ástand og staðan sé nú færast í fyrra horf aftur. Er vísað til niðurstaðna hafrannsókna fyrr á þessu ári sem lagðar hafi verið fram hjá Alþjóðahafrannsóknarráðinu (ICES).
Fram kemur að hægt hafi verið að réttlæta einhverja aukningu hlutdeildar Íslendinga og Færeyinga með breyttri göngu makrílstofnsins en ljóst sé að þær röksemdir eigi ekki lengur við þar sem stofninn sé aftur að færast í fyrra horf. Ekki eigi að verðlauna Íslendinga fyrir tækifærismennsku og ofveiði.
Þá er áformum Evrópusambandsins um að beita ríki sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar að mati sambandsins fagnað og ennfremur fyrirhuguðum fundi forystumanna Evrópusambandsins, Íslands og Noregs 3. september næstkomandi þar sem ætlunin sé að leysa makríldeiluna á pólitískum forsendum.
Einnig er lögð áhersla í minnisblaðinu á nauðsyn þess að norsk stjórnvöld grípi einnig til hliðstæðra aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum sem og pólitísks þrýstings til þess að knýja þjóðirnar til að draga úr kröfum sínum um hlutdeild í makrílstofninum.
Fram kemur í umfjöllun Fiskebat.no að norskir útvegsmenn styðji þau sjónarmið sem fram komi í skýrslu írsku sendinefndarinnar en þar er rætt við Audun Maråk, framkvæmdastjóra samtaka þeirra.