Laugavegshlaupið fer fram í dag í sextánda sinn. Alls var 301 hlaupari ræstur af stað í morgun, í þremur hollum að sögn Gerðar Þóru Björnsdóttur upplýsingafulltrúa. Hlaupið er frá skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum, um Hrafntinnusker, Álftavatn og Emstrur, að endastöðinni við skála Ferðafélagsins í Húsadal í Þórsmörk. Alls er leiðin 55 kílómetra löng.
Keppendur koma víða að
Meirihluti keppenda er Íslendingar en alls eru 97 erlendir keppendur einnig skráðir til leiks í ár. Flestir koma frá Bandaríkjunum, næstir koma Þjóðverjar og þar á eftir Bretar.
Methlauptími í Laugavegshlaupinu er fjórar klukkustundir og 20 mínútur í karlaflokki en fimm klukkustundir og 21 mínúta í kvennaflokki. Ljóst er að nýr sigurvegari verður krýndur í kvennaflokki þar sem enginn af fyrri sigurvegurum er með í ár. Í karlaflokki eru tveir fyrrverandi sigurvegarar skráðir til leiks, þeir Sigurður Þórarinsson og Daníel Smári Guðmundsson.
Elsti keppandinn aftur mættur til leiks
Elsti keppandi sem lokið hefur hlaupinu er aftur mættur til leiks en það er Ingólfur Sveinsson. Var hann 72 ára gamall þegar hann lauk sínu fimmta Laugavegshlaupi í fyrra og leggur nú til atlögu við það sjötta.
Útlit fyrir hæglætisveður
Veður var blítt og stillt þegar keppendur voru ræstir af stað að sögn Gerðar og útlit fyrir hæglætisveður alla leið.