Heimagemlingarnir eins og apakettir

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Nokkur erill hefur verið í kringum rokkhátíðina Eistnaflug sem haldin er í Neskaupstað en um 1.500 manns voru gestkomandi í bænum í tengslum við hátíðina. Tvær líkamsárásir áttu sér stað í morgun.

Í nótt komu einnig upp fleiri fíkniefnamál en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru málin nú orðin um 30 talsins og munu það vera svipað mörg tilfelli og í fyrra. Um er að ræða minniháttar fíkniefnabrot.

Talsvert hefur verið um pústra á milli manna í bænum að sögn lögreglu og munu þar aðallega vera heimamenn að verki. Mikill fjöldi fólks nýtti sér tjaldsvæðið í tengslum við hátíðina.

„Þetta er það mesta sem ég hef séð á þessu tjaldsvæði. Annars voru þessir tjaldbúar alveg til friðs, þetta voru heimagemlingarnir sem létu eins og apakettir,“ sagði varðstjóri í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í nótt. Önnur var minniháttar að sögn lögreglu en í hinu tilfellinu var einn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Frekari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir að svo stöddu en árásarmennirnir eru báðir vistaðir í fangageymslum lögreglu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka