Aukin harka í makrílstríðinu

Á makrílveiðum.
Á makrílveiðum. Ómar Óskarsson

Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, segir ekki koma til greina að Íslendingar og Færeyingar fái „óeðlilega“ stóran hlut í heildarafla makrílsins, enda sé það hvorki stutt með vísindalegum rökum né sögulegri veiðireynslu.

Coveney ítrekaði þessa afstöðu eftir fund landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Evrópuráðsins í Brussel í dag en meðal viðstaddra var Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, sem styður refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum.

Írar hafa sem kunnugt er lagst gegn því að Ísland fái 7,5% af heildaraflanum með vísan til þess að makríll sé að hverfa af Íslandsmiðum. Hefur Hafrannsóknastofnun andmælt þessu.

Kemur ekki til greina að störf innan ESB glatist

Coveney segir Íra „ekki geta stutt hvaða þá atburðarás sem myndi umbuna ósjálfbærri og tækifærissinnaðri makrílveiði Íslands“. Telur ráðherrann að „makríll sé efnahagsleg úthafsveiða og vinnslu [á Írlandi]“.

„Við höfum unnið með Evrópusambandinu og Noregi að því að byggja upp og stjórna sjálfbærum veiðum. Ég get ekki réttlætt þá stöðu að Ísland og Færeyjar endi uppi með óeðlilega stóran hluta af makrílkvótanum, sem hvorki er stuttur vísindalegum gögnum né sögulegri veiðireynslu,“ sagði Coveney og bætti því við að slíkur samningur gæti leitt til þess að störf og efnahagsleg umsvif innan Evrópusambandsins glötuðust til langframa, þróun sem hann gæti ekki leyft að eiga sér stað.

Með yfirlýsingu Coveney má segja að nýr kafli sé að hefjast í makríldeilunni sem skoski sjávarútvegsráðherrann, Richard Lochhead, kallar „makrílstríðið“.

Eins og fram hefur komið stefnir ESB að því að heimildir til refsiaðgerða gegn ríkjum sem talin eru stunda ósjálfbærar veiðar verði komnar í gagnið í haust og yrði þeim að óbreyttu beint gegn Íslandi og Færeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka