„Þetta er alveg ótrúlega spennandi verkefni,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, en hún hefur verið ráðin skólastjóri Tálknafjarðarskóla og hefur störf um næstu mánaðamót.
Margrét Pála mun sinna starfinu í a.m.k. eitt ár á meðan skólinn aðlagast nýrri stefnu.
Tálknafjarðarskóli er sameinaður leik-, grunn- og tónlistarskóli og stunda þar nám ríflega sjötíu nemendur. Verður þetta í fyrsta sinn sem Hjallastefnan er innleidd á unglingastigi en einnig í fyrsta skipti sem Hjallastefnan tekur við menntunarmálum í heilu sveitarfélagi.
Hjallastefnan í níu sveitarfélögum
Segir Margrét Pála það vera ánægjulegt að lítið sveitarfélag á Vestfjörðum skuli ákveða að fara ótroðnar slóðir og framkvæma í leiðinni dálitla byltingu í skólakerfinu hjá sér.
„Þetta er ný reynsla fyrir okkur og það varð að ráði að ég myndi taka þetta verk fyrsta árið og vinna með frábærum starfsmannahópi fyrir vestan,“ segir Margrét Pála.
Hún gerir ekki ráð fyrir því að þurfa að flytjast búferlum í vetur því hún hefur í hyggju að fljúga vestur um hádegi á mánudögum og koma aftur til höfuðborgarinnar síðdegis á fimmtudögum.
Margrét Pála segir skóla Hjallastefnunnar vera mjög sterka og sjálfstætt starfandi og bendir á að í sumar tekur Hjallastefnan einnig við leikskólum bæði í Sandgerði og Vestmannaeyjum.
„Við störfum þá núna í níu sveitarfélögum með um 2.000 börn á okkar vegum. Ég er auðmjúk og þakklát að fólk treysti okkur til starfa.“
„Tálknfirðingar eru kjarkaðir“
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ákvað í maímánuði á þessu ári að taka upp Hjallastefnuna en Margrét Pála hefur undanfarna vetur verið fengin til að ræða skólamál á skóla- og íbúaþingum víðsvegar um landið.
Á einum slíkum fundi, sem haldinn var fyrir vestan, var hún einfaldlega spurð hvort hún gæti ekki komið með starf sitt þangað.
„Mér fannst sjálfsagt að skoða málið og við unnum bæði hratt og vel. Tálknfirðingar eru kjarkaðir og við erum ekkert að fara til að bjarga vondum skólum, það er langt í frá. Heldur vildi sveitarfélagið fá meiri stöðugleika inn í skólastefnu og -stjórnun,“ segir Margrét Pála og bendir á að mörg minni sveitarfélög þurfi oft að treysta á aðkeypta skólastjóra sem margir leiti annað eftir tvö til þrjú ár.
„Það skapar margháttuð vandræði að bæði skólastefna og -stjórn þurfi að byggjast á þeirri aðferð. Með aðkomu Hjallastefnunnar tryggjum við stjórnendur og við tryggjum að skólastefnan, sem Tálknfirðingar eru sáttir við, haldi áfram og náum þannig að skapa stöðugleika sem ellegar hefði ekki verið hægt,“ segir Margrét Pála og bætir við að hún sé full tilhlökkunar að hefja störf.
Aðeins Austurland eftir
Hjallastefnan starfar nú í öllum landshlutum að Austurlandi undanskildu. „Austurland hlýtur að vera næst. Ég bíð spennt eftir upphringingu því okkar verkefni koma þannig til að það er leitað til okkar.“