„Það má lesa það úr orðum írska sjávarútvegsráðherrans að það verði ekki haldið áfram að semja við Íslendinga um Evrópusambandsaðild fyrr en þeir hafi beygt sig undir þessar kröfur,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, í tilefni af ummælum Simons Coveneys, sjávarútvegsráðherra Írlands.
Eins og komið hefur fram á mbl.is telur Coveney að ekki komi til greina að semja við Íslendinga um „óeðlilega“ stóra hlutdeild í heildarafla makrílsins, enda geti það komið niður á störfum og atvinnulífi í sjávarbyggðum innan ESB.
„Samningar við Evrópusambandið undir slíkum hótunum koma að mínu viti alls ekki til greina. Það á að hætta þeim. Strax. Mér sýnist sem Evrópusambandið virðist hafa valið að taka makrílsamninga strandríkjanna í gíslingu Evrópusambandsumsóknarinnar.
Írar hafa tengt makrílveiðarnar við Evrópusambandsumsóknina og hvatt til þess að ekki yrði haldið áfram með samninga um aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna makríldeilunnar. Fleiri þjóðir hafa gert það á vettvangi sambandsins.
Írar halda því fram að það sé ekki makríll hér við land í sumar. Nú berast hins vegar fregnir af svörtum sjó af makríl meðfram öllum ströndum landsins, út á Grænlandshafi og milli Íslands og Grænlands. Þannig að makríllinn er í mikilli sókn norður og vestur af landinu. Þetta er staðreynd sem Írar og aðrar þjóðir verða að viðurkenna.“
Hafa tekið lítinn þátt í rannsóknum
Jón bendir á að framlag Íra til rannsókna á makríl sé takmarkað.
„Evrópusambandsríkin hafa ekki viljað taka þátt í sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna á makrílstofninum og dreifingu hans. Írar, sem þarna eru að þenja sig sérstaklega, hafa til dæmis ekki tekið þátt í þessum rannsóknum.
Þá hafa Írar verið mjög erfiðir í samstarfi hvað varðar gagnkvæmt eftirlit á veiði og löndunum, sem við höfum óskað eftir samstarfi um, eins og aðrar þjóðir sem veiða makrílinn. Varðandi rannsóknirnar má einnig nefna að rannsóknir á útbreiðslu makríls eru mjög takmarkaðar af hálfu Íra. Það eru fyrst og fremst Íslendingar sem hafa beitt sér fyrir rannsóknum á útbreiðslu makríls.“