Skúta strandaði við Skerjafjörð, skammt út af Skildinganesi, skömmu eftir klukkan tíu í kvöld. Lögreglu og slökkviliði var gert viðvart og var kafarabíll og bátur sendur á staðinn, auk sjúkrabíla. Einnig voru björgunarsveitir kallaðar til. Engar spurnir hafa borist af slysum á fólki og ekki er vitað til þess að fólk hafi fallið útbyrðis.
Að sögn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins barst þangað tilkynning frá sjónarvotti í landi klukkan rúmlega tíu í kvöld um að „skúta væri í basli“.
Slökkvilið er nú að störfum við að koma skútunni til aðstoðar.
Ekki er vitað um tildrög óhappsins.
Bætt við klukkan 22.54: Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á höfuðborgarsvæðinu var byrjað að draga skútuna skömmu fyrir klukkan 11 í kvöld. Þar var staðfest að engin slys hefðu orðið á fólki og að skemmdir á skútunni væru óverulegar.