Framkvæmdir eru hafnar við nýjan brettagarð í Laugardal og á hann að verða tilbúinn fyrir lok ágúst. Brettagarðurinn er um 500 fermetrar og umhverfis hann kemur hljóðmön.
Völlurinn sjálfur verður aflöng steypt plata á fyllingu, um 280 fermetrar, með upphækkuðum pöllum til beggja enda. Öll tæki verða fest á steyptu plötuna þannig að hægt sé að fjarlægja þau og breyta um áherslur í takt við óskir brettaáhugafólks, segir á vef Reykjavíkurborgar.
Brettagarðurinn nýi stendur við Engjaveg vestan við knattspyrnuvöll Þróttar. Þessa dagana er verktaki við jarðvegsvinnu. Búið er að grafa fyrir vellinum og verið að fylla með frostfríu efni.