Fara um og ræna á dvalarheimilum

Droplaugarstaðir
Droplaugarstaðir

Sömu menn gerðu tilraun til að stela af vistmönnum hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða á sunnudag og tóku veski fjögurra heimilismanna dvalarheimilisins Hrafnistu snemma í mánuðinum. Upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg segir skelfilegt að þessi hópur skuli orðinn skotskífa óprúttinna glæpamanna.

Eins og greint var frá á mbl.is í gær þótti árvökulum starfsmanni Droplaugarstaða ferðir tveggja manna í húsinu grunsamlegar. Spurði hann þá um erindi og sögðust þeir vera að heimsækja ömmu sína. Nafngreindu þeir ömmuna en hlupu á brott þegar starfsmaðurinn sagði enga konu með því nafni búsetta á heimilinu.

Aðferðin var keimlík þeirri sem notuð var sunnudaginn 1. júlí á Hrafnistu. Þá villti maður á sér heimildir, stal fjórum veskjum og fór rakleiðis í hraðbanka og millifærði á eigin reikning 110 þúsund krónur.

Farið yfir alla öryggisþætti

Elfa Björk Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir að þegar hafi verið sendur póstur á starfsfólk allra hjúkrunar- og dvalarheimila og þjónustuíbúða á vegum borgarinnar. „Þegar svona gerist er farið kirfilega yfir alla öryggisþætti og hvort rétt hafi verið staðið að öllu. Á Droplaugarstöðum var allt rétt gert, það náðist mynd af þeim og tókst að hafa hendur í hári mannanna.“

Á Droplaugarstöðum er þess gætt að hurðir séu ávallt læstar auk öryggismyndavélakerfis. Elfa Björk segir að fólk sé jafnframt hvatt til að opna ekki fyrir neinum nema vita hver sé á ferðinni. Spurð út í hvort ástæða þyki til að herða enn á öryggismálum segir Elfa Björk að ekki megi gleyma því að um heimili fólks er að ræða. Stíga verði varlega til jarðar í þeim efnum, enda sé fólk ekki lokað þarna inni.

En hún viðurkennir að það sé óhugnanlegt þegar eldra fólk verður fyrir tilraunum sem þessari. „Það er kannski það sem er skelfilegast við þetta, að eldra fólk skuli vera orðið hópur til að miða á.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert