„Þetta gengur samkvæmt áætlun og menn eru komnir á lokastig með þessa þætti,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings og stjórnarmaður GáF ehf., varðandi fréttir af því að samkomulag við kínverska auðkýfinginn Huang Nubo um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum sé í höfn.
Bergur segir í samtali við mbl.is að vonir standi til að geta undirritað formlegt samkomulag í lok ágúst og þá telur hann að framkvæmdir á svæðinu geti mögulega hafist eftir eitt til tvö ár.
Aðspurður segir hann að málin hafi verið þokast smátt og smátt í þessa átt, en síðastliðinn einn og hálfan mánuð hafi viðræðurnar verið að sigla í réttan farveg. „Nú er ákveðið fínpúss og slíkt sem er eftir,“ segir Bergur sem er sáttur við niðurstöðuna.
Samningaviðræðurnar standa á milli félagsins GáF, sem sjö sveitarfélög á Norðurlandi standa að, og Zhongkun-fjárfestingarfélags Huangs. „Síðan hefur Atvinnuþróunarfélag Eyjafarðar og Þingeyinga verið með okkur í þessari vinnu þar sem mörg sveitarfélög koma að málum,“ segir Bergur.
Huang segir í viðtalinu við Bloomberg að leiguverðið sé rétt undir 7,8 milljónum dala. „Það er rétt,“ segir Bergur aðspurður. Hann bætir því síðan við að hann ætli ekki að tjá sig um tæknileg atriði í samkomulaginu.
„Það var tekinn ákveðinn snúningur þegar ég fór til Kína [í febrúar sl.],“ segir Bergur og heldur áfram: „Þá fóru menn að setja þetta í nýja mynd og aðilar voru tilbúnir að láta á það reyna. Þarna er komin niðurstaða sem er mjög ásættanleg fyrir alla aðila.“
Hún feli í sér stækkun þjóðgarðsins og að ákvæðin svæði, sem eru alls um þrír ferkílómetrar að stærð, verði skilgreind undir þá starfsemi. Síðan sé stefnt að því að gera hluta landsins að fólkvangi sem þýði að fólk hafi meiri réttindi en það hefur í dag. „Og eignarhaldið á landinu verður í almannaeigu,“ segir Bergur.
Spurður um það hvenær búast megi við að samkomulagið verði undirritað með formlegum hætti segir Bergur: „Eins og þetta leit út fyrir tveimur vikum vorum við jafnvel að tala um í lok ágúst. En af því það er svolítið langt á milli, þá er það í sjálfu sér aðalatriðið að menn finni sér tíma, komi og geri þetta með ákveðnum stæl,“ segir Bergur og bætir við að nánari tímasetning liggi betur fyrir síðar.
Hvað varðar uppbyggingu svæðisins segir Bergur að fyrst verið farið í ákveðið hönnunarferli sem taki sinn tíma. „Þetta tekur ábyggilega eitt, tvö ár.“
Bergur tekur fram að aðdragandinn hafi verið langur eða um tvö ár. Fjárfestingarhugmyndir Huangs passi vel við stefnu Norðurþings um menningar- og náttúrutengda þjónustu.
„Það sem hefur verið markmiðið hjá mér og mínu fólki er að fara og reyna að leiða þetta mál til lykta. Það er að segja, að keyra þetta alla leið. Menn hafa verið misjafnlega hrifnir að því og hafa rétt á sinni skoðun og allt í góðu. En við höfum unnið okkar vinnu og unnið hana eins faglega og okkur er unnt. Við höfum reynt að koma fram með sáttaleið, þannig að það sé tekið tillit til sem flestra sjónarmiða, m.a. eignaraðildar á landi og verndunar náttúru, fólkvanga og slíkt. Við teljum að þetta eigi að falla saman,“ segir hann.
„Ég verð að segja eins og er að það kæmi mér verulega á óvart ef einhver færi að setja fótinn fyrir, allavega það sem við höfum náð hingað til. Það verða þá að koma upp einhver ný rök upp í málinu.“
Bergur bendir á að líkt og mörg önnur sveitarfélög á landinu hafi Norðurþing byggt afkomu sína á landbúnaði og sjávarútvegi í gegnum tíðina. Í dag vilji menn stuðla að auknum fjölbreytileika.
„Við settum fókusinn á tvennt: fjárfestingar í ferðamannaiðnaði og í orku. Að þessu höfum við unnið ötullega núna í allmörg ár og vonum að það skili okkur einhverjum árangri,“ segir Bergur að lokum.