Styðja hertar aðgerðir gegn Sýrlandi

Íslensk stjórnvöld lýsa yfir fullum stuðningi við hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart Sýrlandi. Tillaga þess efnis er nú til umfjöllunar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að frumkvæði Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands, Portúgals og Þýskalands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ítrekar fordæmingu á framferði sýrlenskra stjórnvalda og síauknar árásir vopnaðra sveita á þeirra vegum á almenna borgara. Voðaverk stjórnvalda í Sýrlandi brjóta í bága við alþjóðleg mannúðarlög og fyrri ályktanir öryggisráðsins. Öllu ofbeldi verður að linna, hver svo sem ber ábyrgð á því.

Ísland hvetur því öll aðildarríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að sameinast um ályktunardrög sem lögð hafa verið fram af fyrrgreindum fimm ríkjum og kveða á um að gripið verði til þvingunaraðgerða kjósi sýrlensk stjórnvöld að framfylgja ekki tafarlaust ályktunum ráðsins.

Ísland styður áframhaldandi friðarumleitanir Kofis Annan og yfirlýsingu aðgerðahópsins um málefni Sýrlands sem samþykkt var á fundi hópsins hinn 30. júní síðastliðinn,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka