Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segist í samtali við Morgunblaðið vera að öllu leyti sammála Valgerði Bjarnadóttur, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, um að dagsetning á þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs sé 20. október í síðasta lagi, á meðan önnur dagsetning hafi ekki verið valin. Haft var eftir Valgerði í fréttum RÚV í gær að 20. október sem kjördagur væri alveg skýr í sínum huga, á meðan önnur dagsetning hefði ekki verið ákveðin.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu síðustu daga þá óskaði innanríkisráðuneytið eftir því í bréfi til forsætisnefndar Alþingis að Alþingi ákvæði endanlega dagsetningu fyrir kjördag þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Svaraði forseti Alþingis því til að stjórnvöld ættu að haga undirbúningi sínum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Skrifstofa þingsins tæki þannig mið af þeirri dagsetningu í sinni vinnu. Ekki náðist í Ögmund Jónasson innanríkisráðherra til að fá viðbrögð við svari Alþingis. Stjórnarandstaðan hefur þrýst á að málið verði endurskoðað frá grunni.