Ekki stendur til að auglýsa í stöðu ráðuneytisstjóra í fyrirhuguðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti líkt og gert var þegar velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið tóku til starfa í ársbyrjun 2011.
Með nýlegum forsetaúrskurði var Steingrími J. Sigfússyni falið að undirbúa stofnun nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem á að taka til starfa 4. september næstkomandi. Þrjú ráðuneyti renna þá saman; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og hluti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Gegnir Steingrímur störfum ráðherra í öllum þessum ráðuneytum í dag en Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra er sem kunnugt er í fæðingarorlofi.
Helga Jónsdóttir er ráðuneytisstjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Kristján Skarphéðinsson gegnir sömu stöðu í iðnaðarráðuneytinu og Sigurgeir Þorgeirsson er ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.
Fram kom á vef Stjórnarráðsins í gærkvöldi að Kristjáni hefði verið falið að leiða undirbúning stofnunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem verður til húsa að Skúlagötu 4, þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er nú.