„Við eigum þessi kvikindi“

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson mbl.is/Golli

„Ég get alveg vottað með fullri vissu að samstarfsviljinn, samstarfið og samþættingin er til muna betri í þessari áhöfn en á þeim vinnustað sem ég hef verið á síðastliðin fjögur ár,“ sagði Kristján Þór Júlíusson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann er nú háseti á Vilhelm Þorsteinssyni EA sem er á makrílveiðum austur af landinu. Aflinn er hausskorinn og heilfrystur um borð.

„Ég skrapp á makríl, tvo túra. Ég hef einu sinni prófað þetta áður og fór tvo túra í hittiðfyrra,“ sagði Kristján Þór um makrílveiðarnar. Hann er vanur sjómennsku og með skipstjórnarpróf. Kristján var bæði skipstjóri og stýrimaður á sínum tíma auk þess sem hann kenndi við Stýrimannaskólann á Dalvík.

„Ég ætlaði að finna út úr því sjálfur hvort það væri rétt hjá Evrópusambandinu að það ætti þennan makríl – hvort hann talaði bara erlendar tungur? Þessi makríll sem við fáum talar fullkomna íslensku, meira að segja forníslensku! Við eigum þessi kvikindi,“ sagði Kristján Þór léttur í bragði. Hann sagði að það væri búið að vera ágætis fiskirí og makríllinn góður.

„Þetta stemmir ekki við það sem Írarnir reyna að halda fram til að hræða Íslendinga til þess að gefa eftir af kröfum sínum,“ sagði Kristján Þór. Hann sagði að þeir þyrftu ekki að kvarta á Vilhelm Þorsteinssyni EA yfir aflabrögðunum. „Við erum með það mikla aflakló sem kaptein að það hálfa væri nóg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka