Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aflamark fiskveiðiársins 2012/2013 var kynnt síðastliðinn föstudag. Eins og fram hefur komið nemur heildaraflamarkið 458,2 þúsund tonnum sem er aukning um 7,7% á milli ára. Almennt þykir ástand helstu nytjastofna vera nokkuð gott og þá sérstaklega ástand þorskstofnsins. Aðra sögu er hins vegar að segja af ýsunni. Ýsukvótinn hefur dregist saman um rúm 65% frá fiskveiðiárinu 2006/2007 en þá var hann 105 þúsund tonn. En hvað veldur, hvers vegna hefur aflamarkið á ýsu verið minnkað jafn mikið og raun ber vitni?
Svarið liggur í lélegum árgöngum síðustu ára. Nýliðunarbrestur í ýsustofninum hefur leitt til þess að aflamarkið hefur verið minnkað um 20% og er nú 36 þúsund tonn. Öll stofnmatslíkön Hafrannsóknastofnunar sýna að ýsustofninn fer minnkandi. Í skýrslu stofnunarinnar um aflahorfur á næsta fiskveiðiári kemur fram að stofnstærð 3 ára og eldri ýsu í upphafi árs 2012 er metin 121 þúsund tonn.
Meðalveiðidánartala 4 til 7 ára ýsu árið 2011 er metin um 0,45 sem stofnunin segir verulega yfir því marki sem stefnt hafi verið að. Veiðidánartala á árinu 2012 er áætluð um 0,40 að því gefnu að afli verði 44 þúsund tonn. Veiðidánartala er hugtak sem fiskifræðingar nota yfir dauða af mannavöldum, m.ö.o. veiðin.
Til að setja hlutina í samhengi þá var veiðimetið á ýsu sett, sem fyrr segir, fiskveiðiárið 200/2007 þegar um 105 þúsund tonn veiddust. Minnstur var aflinn 13 þúsund tonn árið 1943 og er meðalafli íslenskra skipa um 40 þúsund tonn á ári síðastliðna hálfa öld.
Hafrannsóknastofnun metur árgangana 2008-2011 mjög slaka. Að meðaltali innihalda þeir um 20 milljónir svokallaðra nýliða, eða tveggja ára fiska. Hafró segir þann afla svara til um 16 þúsund tonna heildarafla að hámarki úr hverjum þessara árganga miðað við að afrakstur nýliða verði um 800 grömm líkt og verið hafi úr árgöngum af svipaðri stærð á undanförnum áratugum.
Gert er ráð fyrir að árgangur 2003 verði 16% aflans árið 2012 í þyngd og 10% árið 2013 þegar hann verður orðinn 10 ára gamall. Hafró gerir þó ráð fyrir að árgangurinn frá 2007 muni vega mest í aflanum næstu ár, 43% í þyngd 2012 en 46% árið 2013 samkvæmt tölum stofnunarinnar.
Samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar mun ýsustofninn minnka áfram á komandi árum þegar slöku árgangarnir frá 2008 til 2011 koma inn í hrygningarstofninn. Svo gæti farið að ýsustofninn yrði nálægt sögulega lágmarkinu árin 2014 til 2015. En til að koma í veg fyrir það lagði stofnunin til að hámarksaflamark ýsu fyrir næsta fiskveiðiár yrði 32 þúsund tonn. Sérfræðingar sem Morgunblaðið ræddi við sögðu enga einfalda skýringu á lélegri endurnýtingu ýsustofnsins en hún væri að öllum líkindum náttúruleg. Athuganir síðustu ára sýni nokkrar sveiflur í stofninum.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar var meðal þess sem ráðherra leit til við ákvörðun á aflamarkinu auk þess sem hann leitaði til hagsmunaaðila. Niðurstaða ráðherra var sem fyrr segir að aflamarkið verður 36 þúsund tonn eða um 20% minna en í fyrra sem er um 4.000 tonnum minna en meðalafli á ýsu á ársgrundvelli síðastliðna hálfa öld.