Bifhjólamenn í sérstakri hættu

Unnið að malbikun í borginni.
Unnið að malbikun í borginni. mbl.is/Kristinn

Nú standa yfir framkvæmdir víða á vegum, þar sem verið er að malbika, leggja nýtt slitlag eða gera aðrar endurbætur á umferðarmannvirkjum. Umferðarstofa vill að gefnu tilefni vekja athygli á mikilvægi öryggis undir slíkum kringumstæðum og segir að gæta þurfi sérstakrar varúðar við framkvæmdasvæðin.

Umferðarstofa beinir því sérstaklega til bifhjólafólks, að það fylgist vel með og sýni mikla aðgæslu á nýlögðu slitlagi vegna mikillar slysahættu. Þetta eigi bæði við þar sem möl er á vegi og einnig á nýlögðu malbiki sem getur reynst mjög hált, sérstaklega í rigningu.

„Jafnframt eru framkvæmdaaðilar hvattir til að hreinsa yfirborð gatna og gera aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi allra vegfarendahópa sem best, þ.m.t. hjólandi og gangandi. Öryggi á vegavinnusvæðum er mikilvægt fyrir alla aðila, vegfarendur og ekki síður þá sem eru að störfum á þeim stöðum,“ segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

Þar segir einnig, að allar reglur um merkingar á og við framkvæmdasvæði hafi verið endurskoðaðar og gerðar séu töluverðar kröfur til verktaka og verkkaupa um að þeim sé framfylgt. Ef rétt sé staðið að málum þá séu settar upp hraðatakmarkanir sem mikilvægt sé að ökumenn fari eftir og þá ekki síst bifhjólamenn.

„Ef ekið er of hratt á nýlögðu slitlagi þar sem möl er borin ofan í veginn skapast mikil hætta á framrúðu- og lakkskemmdum vegna grjótkasts þegar ekið er of hratt. Auk þess eykst hættan á því að ökutækið missi veggrip.

Þeir sem virða ekki hraðamörk og fara of hratt yfir nýlagt slitlagið draga mjög úr endingu þess. Það er því hægt að segja, að með því að fara varlega og aka á leyfðum hraða sé komið í veg fyrir óþarflega tíðar viðgerðir á vegum með tilheyrandi töfum og kostnaði,“ segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert