Bjartsýnni á samninga við Ísland

Wikipedia

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ekki bjartsýn á að það takist að semja við Færeyinga vegna makríldeilunnar en er hins vegar aðeins bjartsýnni í tilfelli Íslands vegna umsóknar landsins um inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram hjá fréttaveitunni Agence Europe í gær.

Vísað er til þess í fréttinni að Evrópusambandið, Norðmenn, Íslendingar og Færeyingar muni reyna enn eina ferðina að ná sáttum í deilunni á fundi í september næstkomandi. Þá er fjallað um fyrirhugaðar heimildir sambandsins til þess að beita ríki utan þess refsiaðgerðum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar.

Rætt var um refsiheimildirnar á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins síðastliðinn mánudag. Fulltrúar Íra, Portúgals, Spánar og Frakklands óskuðu meðal annars eftir upplýsingum frá framkvæmdastjórninni um viðskiptaþvinganir sem hægt yrði að beita gegn Íslendingum og Færeyingum samkvæmt fréttinni.

Hollendingar, Bretar og Belgar kölluðu ennfremur eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tæki einhliða framgöngu Íslands og Færeyja föstum tökum. Svíar og Finnar lögðu hins vegar áherslu á að reynt yrði að finna málamiðlun áður en gripið yrði til refsiaðgerða.

Gert er ráð fyrir að heimildir til refsiaðgerða verði afgreiddar af ráðherraráði Evrópusambandsins og Evrópuþinginu í september næstkomandi og yrði þá hægt að beita þeim strax í lok þess mánaðar en þær gætu meðal annars falist í löndunarbanni á íslenskum sjávarafurðum í höfnum sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert