Engin undanþága

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er enn andvígur því að undanþága verði veitt frá lögum til að greiða fyrir uppbyggingu kínverska auðjöfursins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum og ítrekar að samningur sveitarfélaga vegna verkefnisins eigi enn eftir að koma inn á hans borð. Þar verði m.a. horft til reglugerða sem gildi um fjárreiður sveitarfélaga. Þá óttast Ögmundur að áform Huang og tengdra aðila muni sundra þjóðinni.

„Talsmenn hinnar erlendu samsteypu segjast hingað komnir Íslandi til góðs. Ég get ekki fullyrt hvað fyrir þeim vakir, en ég óttast að aðkoma þeirra komi til með að kljúfa samfélag okkar í herðar niður, svo miklar deilur eru að magnast um þetta mál,“ segir Ögmundur.

Undirbúningur hefjist á næsta ári

Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang, segir samninga vegna uppbyggingar hótels og tuga frístundahúsa á Grímsstöðum langt komna. Framundan sé „lokafrágangurinn“ með það fyrir augum að ganga frá lausum endum í október. Í kjölfarið sé ætlunin að hefja undirbúningsframkvæmdir á næsta ári og hefja uppbyggingu árið 2014.

„Um leið og grænt ljós liggur fyrir mun fara af stað skipulags- og hönnunarvinna við að skipta landinu upp. Óvíst er hvað það tekur langan tíma. Ég myndi giska á eitt ár en það gæti dregist.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert