Færeysk stjórnvöld gagnrýna harðlega hótanir Íra og annarra Evrópusambandsríkja um refsiaðgerðir gegn eyjunum og Íslandi fyrir að veiða of mikið af makríl. Áður hafði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagt að sömu hótanir væru áróður.
Að sögn Kate Sanderson, sem fer með sjávarútvegs-, viðskipta- og byggðamál á skrifstofu færeyska forsætisráðherrans, þykja kröfur fyrrnefndra aðila í hæsta máta óviðeigandi og bera vott um mikla skammsýni, að sögn AFP-fréttastofunnar.
Hafa Írar, með stuðningi Frakka, Portúgala og Spánar, beðið Framkvæmdastjórn ESB um upplýsingar um möguleg viðskiptahöft á Íslendinga og Færeyinga vegna makríldeilunnar. Hefur þetta nýjasta útspil orðið til þess að farið er að kalla deiluna „makrílstríðið“.
Evrópusambandsríkin eru ósátt við þá kvóta sem Íslendingar og Færeyingar ætla að veiða. Að mati framkvæmdastjórnar ESB verður veiði á makríl um 36% meiri í ár en talið er æskilegt fyrir sjálfbærni stofnsins.
Til stendur að fulltrúar ESB, Íslands, Færeyja og Noregs fundi um makrílinn í London í haust og reyni að komast að samkomulagi. Að sögn Sanderson hjálpa hótanirnar nú hins vegar ekki til við lausn deilunnar.
Gagnrýnir Sanderson einkum þá ákvörðun ESB og Noregs að skipta á milli sín um 90% af 639.000 tonna heildarmakrílkvótanum í ár, þannig að Ísland og Færeyjar fengju hvort um sig aðeins fimm prósent.