Fíkniefnabrot voru 996 fyrstu sex mánuði ársins sem er tæplega þriðjungi fleiri brot en yfir sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í Afbrotatíðindum ríkislögreglustjóra. Einnig að 72% fíkniefnabrota í júnímánuði voru vegna vörslu eða meðferðar fíkniefna, 9,7% vegna framleiðslu, 2% vegna sölu og dreifingar og 5,5% vegna innflutnings fíkniefna. Um 10% voru „ýmis fíkniefnabrot“ en þar undir falla t.d. tilvik þar sem fíkniefni finnast og á víðavangi.
Ekki aðeins eru fíkniefnabrot fleiri en á síðasta ári heldur einnig árið 2010. Í fyrra voru þau 768 fyrstu sex mánuði ársins og 713 árið 2010.