Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur stofnað viðburð á samskiptasíðunni Facebook undir heitinu: Leitin að Jóni Gnarr!
,,Það hefur ekkert spurst til borgarstjórans í Reykjavík í þónokkurn tíma. Heimdallur hefur áhyggjur af því að hann sé týndur og tröllum gefinn og boðar því til samkeppni þar sem vegleg fundarlaun eru í boði,“ segir í fréttatilkynningu frá Heimdalli.
„Reykjavík þarf nauðsynlega á borgarstjóra að halda og því er mjög mikilvægt að Jón Gnarr komi í leitinar sem fyrst ella þarf að finna nýjan borgarstjóra fyrir Reykjavík.“
Fyrir þá sem ekki eru vissir um ytra útlit borgarstjórans fylgir lýsing á útliti hans: „Jón Gnarr er meðalhávaxinn karlmaður með rautt hár og frekar há kollvik. Seinast sást til hans í viðtali á mbl.is þar sem hann kom fram í ljósbrúnum jakkafötum.“
Til mikils er að vinna því Heimdellingar heita finnandanum veglegum verðlaunum. „Sá sem finnur borgarstjórann er beðinn að taka mynd af honum og setja á vegginn. Í verðlaun eru m.a. VHS spóla af ,,Ég var einu sinni nörd" og þriggja mánaða áskrift af Séð og heyrt,“ segir í fréttatilkynningunni.
Borgarstjóri þarf að vera sýnilegur og taka þátt í því sem er að gerast í borginni. Þá þarf hann einnig að taka afstöðu í málum sem varða íbúa Reykjavíkur. Ef hann finnst ekki á næstu dögum vonum við að hann segi af sér og við fáum nýjan borgarstjóra sem uppfyllir ofangreind skilyrði,“ segir í fréttatilkynningunni frá Heimdalli.