Þýsk hjón sem leitað hefur verið að eru fundin. Þau fundust nú rétt fyrir kl. 10 í morgun á gönguleiðinni milli Egilssels og Múlaskála, sem er á gönguleiðinni suður í Lón. Hjónin, sem eru um sextugt, voru við góða heilsu og halda áfram göngu sinni.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þá kom það hjónunum á óvart að verið væri að leita að þeim.
Yfir 50 björgunarsveitarmenn, þyrla Landhelgisgæslunnar og landverðir tóku þátt í leitinni í morgun, sem hefur nú verið aflétt.
Það var skálavörður í Múlaskála sem fann hjónin í tjaldi samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni. Var þyrla Landhelgisgæslunnar þá kölluð tilbaka og mun hún skila björgunarsveitarmanni og leiðsögumanni á Egilsstaði áður en haldið verður til Reykjavíkur.