Viðar Árnason á sér draum um að geta hjólað um með sonum sínum. En það er meira en að segja það því Viðar hefur verið bundinn við hjólastól síðan hann lamaðist í bílslysi árið 1987. Hann hefur lengi haft augastað á handknúnu þríhjóli sem gæti látið draum hans um fjölskylduhjólatúr rætast en slíkt hjól er þó mjög dýrt. En nú eru breytingar í vændum því á fimmtudagskvöld fara fram styrktartónleikar fyrir Viðar og ágóðinn verður notaður til hjólakaupanna.
„Þetta er þríhjól sem kemur frá Þýskalandi og maður getur hjólað í meiri ójöfnu en hefðbundin svona hjól leyfa. Maður situr einnig hærra og með þessu kemst ég meira um og get þá hjólað um með strákunum mínum,“ segir Viðar og vonast einnig til að geta notið náttúrunnar betur á slíku hjóli. Strákarnir hans, þeir Ísak og Jafet eru 10 ára gamlir tvíburar, og eins og margir jafnaldrar þeirra finnst þeim mikið sport að hjóla um í Mosfellsbænum þar sem fjölskyldan býr. Viðar hlakkar mest til að geta hjólað um með þeim.
Viðar er úr Vestmannaeyjum en neyddist til að flytja í bæinn eftir að hann lenti í slysinu. „Það er bara ekkert hægt að vera þar í hjólastól. Maður myndi bara lokast inni,“ segir Viðar. En hann unir hag sínum vel í Mosfellsbænum og hlakkar til komandi hjólatúra með fjölskyldunni.
Styrktartónleikarnir verða haldnir á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ á morgun, fimmtudaginn 19. júlí, og hefjast þeir kl. 20.30. Miðaverð er 2.000 krónur.