Útskrift 41 stúdents úr Menntaskólanum Hraðbraut fór fram laugardaginn 7. júlí síðastliðinn. Dúx skólans varð Gadidjah Margrét Ögmundsdóttir með 9,07 í meðaleinkunn á stúdentsprófi.
Ástæða fækkunar
Í Menntaskólanum Hraðbraut gefst námsmönnum færi á að klára nám til stúdentsprófs á aðeins tveimur árum. Var hópurinn nú sá minnsti sem útskrifast hefur frá skólanum en ástæðu fækkunarinnar má rekja til aðfarar menntamálaráðherra að skólanum og starfi hans segir í tilkynningu.
Ennfremur segir: „Fram kom í ræðu Ólafs Hauks Johnson skólastjóra við útskriftina að fjárhagslegur rekstur skólans hefur gengið vel og vegna einungis tveggja ára námstíma er skólinn þjóðhagslega hagkvæmasti framhaldsskóli landsins. Jafnframt kom fram í ræðu Ólafs að menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur gert harða atlögu að starfi skólans og neitað honum um nýjan þjónustusamning. Ekkert skólastarf verður því í skólanum næsta skólaár en stefnt að því að ná nýjum þjónustusamningi við ríkið þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við að loknum næstu kosningum.“
Hinn 29. júní 2010 óskaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun fjallaði um framkvæmd þjónustusamnings ráðuneytisins við Hraðbraut ehf. sem rekið hefur Menntaskólann Hraðbraut. Skýrslan var tilbúin í september sama ár en í henni gagnrýndi Ríkisendurskoðun nokkur atriði sem tengdust tilurð þjónustusamningsins fyrir fyrirtækið í upphafi áratugarins.