Veðurstofa Íslands bendir þeim vegfarendum sem ferðast með aftanívagna á að spáð er versnandi veðri um helgina. Á vef Veðurstofunnar er spáð hvössum vindi og allmikilli rigningu seinnipart laugardags og á sunnudag um mes allt landið.
„Við eigum von á ágætis veðri á morgun, það verður þungbúið en rólegheitaveður. En síðan eru rólegheitin búin. Okkur nálgast ansi djúp og mikil lægð úr suðvestri, skilin frá henni og þar með mesti vindurinn koma inn á suðvesturhornið seinnipart laugardags og síðan fara þau yfir landið um kvöldið og nóttina. Því fylgir hvass vindur og mikil rigning,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Þannig að það er ekki heppilegasta veðrið til útivistar.“
Fólk hugi að plasthúsgögnum og trampólínum
Óli Þór segir að þeir sem eiga garðhúsgögn úr léttu plasti ættu að huga að því að koma þeim þannig fyrir að þau fjúki ekki og huga ætti að trampólínum. „Á meðan skilin eru að fara hjá má reikna með að vindurinn verði á bilinu 10-18 m/s, það er alveg yfirdrifið nóg til að koma hlutum af stað.“
Hann segir að líklega verði einna hvassast við suðurströndina. „Einnig á þessum hefðbundnu stöðum, eins og undir Ingólfsfjalli, Eyjafjöllunum, Öræfasveitinni, Hafnarfjalli og Kjalarnesi. Þannig að það verður ekkert sérlega gaman að fara með aftanívagna fyrir þessa staði. Þarna gætu hviðurnar farið upp undir 30 m/s.“
Allir fá sinn skammt
Að sögn Óla Þórs mun fara að draga úr vindi þegar skilin verða farin hjá fyrir norðan og þar verður líka einna þurrast á sunnudeginum. Úrkoma verður sunnanlands á sunnudaginn en þegar lægðin fer til austurs við suðurströndina fer að rigna aftur fyrir norðan og þar mun halda áfram að rigna allan mánudaginn. „En þá mun stytta upp fyrir sunnan, þannig að allir fá sinn skammt af vætu og vindi. Annars verður sunnudagurinn skaplegastur fyrir norðan.“
Blautt og hvasst í Eyjum
Spurður að því hvar mesta úrkoman verði segir Óli Þór að algengt sé að það sé þar sem skilin komi upp að landi og þar sem há fjöll séu fyrir. „Það er í kringum jöklana, þar eru fjöllin hvað hæst og það verður líklega undir Eyjafjöllunum, sunnanmegin í Mýrdalsjökli og áveðurs á Vatnajökulssvæðinu, frá Lómagnúpi og austur á Höfn. Það eru líklega þeir staðir sem fá mestu úrkomuna. Svo verður ansi blautt í Vestmannaeyjum og þeir fá líklega ansi hvasst veður þar á laugardagskvöldið.“