Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins í gær kom fram að rekja mætti hluta af bókhaldslegu tapi ríkissjóðs til taps fyrri ára í rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA). Þessi framsetning gefur villandi mynd af rekstri og stöðu sjóðsins, segir í tilkynningu frá sjóðnum. Af þeim sökum telur NSA nauðsynlegt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
1. NSA fékk engin bein framlög frá ríkinu árið 2011. Sjóðurinn hefur ekki fengið bein fjárframlög frá skattgreiðendum síðan árið 2005, þegar hluta af ágóða vegna sölu Símans var ráðstafað til sjóðsins.
2. Eign ríkisins í NSA hefur hins vegar verið ofmetin í bókhaldi ríkisins um langt skeið. Um þetta hefur NSA ekkert haft að segja. Mat ríkisins hingað til hefur ekki stuðst við ársreikninga eða álit sjóðsins.
3. Bókhaldslegt endurmat á eign ríkisins í NSA hefur þau áhrif að í ríkisreikningi myndast um fimm milljarða króna gjaldfærsla. Þetta endurmat hefur þó ekkert með rekstur eða stöðu NSA að gera.
4. NSA er áhættufjárfestingarsjóður. Það er eðli slíkrar starfsemi að nákvæmt verðmat á eignum er ákaflega vandasamt og háð mikilli óvissu. NSA hefur því lagt mikla áherslu á að gæta varúðar við slíkt mat. Sjóðurinn telur ekki til tekna verðhækkanir á hlutabréfum í fyrirtækjum sínum fyrr en endanleg sala á sér stað en færir tap um leið og það myndast.
5. Eigið fé NSA var jákvætt um 4,6 milljarða hinn 31. desember 2011
6. Rekstur NSA á árinu 2012 stefnir í umtalsverðan hagnað. Er þetta fyrst og fremst vegna sölu á hlut sjóðsins í fyrirtækinu Marorku.
„Það liggur í eðli starfsemi NSA að langur tími getur liðið frá því að fjárfest er í fyrirtæki þar til fjármunirnir endurheimtast. Jafnframt er það í eðli starfseminnar að sumar af fjárfestingum sjóðsins munu alls ekki endurheimtast,“ segir í tilkynningunni.
NSA á nú eignarhluti í 39 íslenskum fyrirtækjum og þremur fjárfestingarsjóðum. Í þessum fyrirtækjum starfar vel á sjötta hundrað manns og námu samanlagðar gjaldeyristekjur þeirra árið 2011 um 4,5 milljörðum króna.
„Fréttir af þætti NSA í afkomutölum ríkissjóðs segja því ekkert um stöðu sjóðsins. Engu að síður er það fagnaðarefni að röng skráning ríkisins á eignarhlut hans í sjóðnum hafi verið leiðrétt, enda hefur NSA lagt áherslu á að meta eignir sínar í samræmi við ýtrustu varúðarreglur,“ segir í tilkynningunni.