„Óttast að hún lendi á götunni“

Fjölskyldan hefur barist fyrir dvalarleyfi Romylyn í sjö ár. Frá …
Fjölskyldan hefur barist fyrir dvalarleyfi Romylyn í sjö ár. Frá vinstri: Romylyn Patti Fagaine, Ellert Högni Jónsson, Una Margrét Ellertsdóttir og Marilyn Sucgang Faigane.

„Við fáum engin svör frá ráðuneytinu önnur en að málið verði í fyrsta lagi tekið fyrir eftir 6-7 mánuði.  Við sjáum ekkert annað í stöðunni en að Romylyn verði send úr landi á mánudaginn,“ segir Ellert Högni Jónsson, fósturfaðir Romylyn Patty Faigane, filippseyskrar stúlku sem ekki fær dvalarleyfi hér á landi. 

Romylyn á enga aðstandendur á Filippseyjum og hann óttast að hennar bíði ekkert nema gatan. Fjölskylda hennar á Íslandi kærði brottvísunina og talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að hugsanlega verði brottvísun frestað á meðan verið er að taka kæruna fyrir.

Sjö ára þrautaganga

Móðir stúlkunnar, Marylyn, giftist Ellerti fyrir sjö árum og flutti hingað til lands. Þá varð Romylyn eftir hjá afa sínum á Filippseyjum, en skömmu síðar sóttu Ellert og Marylyn um dvalarleyfi fyrir stúlkuna, sem þá var 14 ára. Umsókninni var hafnað með þeim rökum að faðir Romylyn væri á lífi og hann gæti séð um hana. Að sögn Ellerts vildi faðir hennar þó helst að hún fengi að búa á Íslandi, enda hafði hann lítinn þátt tekið í uppeldi hennar.

Faðir Romylyn var myrtur árið 2009 og þá hófst umsóknarferlið að nýju. Fjölskyldan naut dyggs stuðnings Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, en umsókninni var hafnað og skömmu síðar varð stúlkan 18 ára og þar með lögráða. Þá var málið komið í annan farveg og henni boðið að sækja um dvalarleyfi sem nemandi eða sérfræðingur.

Romylyn bjó áfram hjá afa sínum, en hann fór nýlega á dvalarheimili og hún átti engan annan að á Filippseyjum. Úr varð að hún kom sem ferðamaður til Íslands í desember síðastliðnum og var aftur sótt um dvalarleyfi. Svar Útlendingastofnunar barst 21. júní og þar segir að henni sé gert að yfirgefa landið innan 30 daga. Fresturinn rennur út á mánudaginn.

„Vissi ekki hvað ég átti að segja“

„Við kærðum niðurstöðuna til innanríkisráðuneytisins nánast um leið og við fengum hana í hendurnar,“ segir Ellert. „Við viljum fá frest á meðan verið er að fjalla um málið. Stjórnsýslan verður að svara kærunni innan þriggja vikna. En við höfum ekkert heyrt frá þeim. Ég hringdi í innanríkisráðuneytið í síðustu viku og spurði hvort búið væri að taka afstöðu til málsins. Einu svörin sem við höfum fengið er að málið verði tekið fyrir í fyrsta lagi eftir 6-7 mánuði. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja, ég trúði þessu ekki.“

En hvað gerist á mánudaginn, gangi brottvísun Romylynar eftir? 

„Við eigum ekki fyrir flugfarinu. Allt okkar fé hefur farið í lögfræðikostnað vegna þessa máls. Við höfum staðið í þessu ferli í sjö ár. Samkvæmt lögum má ekki aðskilja barn frá móður sinni. Mamma hennar og systir búa hérna, hún er stjúpdóttir mín og við teljum að gróflega hafi verið brotið á rétti okkar allra. Það eina sem við sjáum fyrir okkur núna er að safna peningum og fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.“

Þann tíma sem Romylyn hefur dvalið hér á landi hefur hún meðal annars lagt stund á íslenskunám við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og henni hefur verið boðið starf á hjúkrunarheimili.

Gera fátt annað en að gráta

Ellert óttast um afdrif Romylynar, verði hún send úr landi. „Hennar bíður ekkert nema gatan. Hún á engan að á Filippseyjum, enga fjölskyldu, ekkert bakland. Við missum hana bara frá okkur ef hún fer.“

Fjölskyldan kvíðir framtíðinni. „Þetta er hroðalegt ástand. Mæðgurnar þrjár gera fátt annað en að gráta. Að þetta skuli gerast hérna á litla Íslandi, við áttum ekki von á að þetta myndi fara svona.“

Ráðuneytið er að athuga málið

„Ráðuneytið er að athuga hvort þessi frestur verði veittur, en fjölskyldan óskaði eftir því að stúlkan yrði ekki send úr landi á meðan málið er í kæruferli hjá ráðuneytinu,“ segir Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins. „Við getum ekki farið ofan í einstök atriði einstakra mála, en kannski liggur þetta fyrir á morgun.“

Romylyn Patty Faigane á móður, systur og stjúpföður á Íslandi. …
Romylyn Patty Faigane á móður, systur og stjúpföður á Íslandi. Hún hefur ekki fengið hér dvalarleyfi þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert