Þríþrautardeild Sundfélags Hafnarfjarðar heldur Íslandsmeistaramót í hálfum járnkarli (Iron-man distance) núna á sunnudaginn og er Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, meðal keppenda.
Keppnin kl. 09:00. Synt verður í Ásvallalaug í Hafnarfirði (1.900 m), hjólað á Krísuvíkurvegi (90 km) og hlaupið (21,1 km) um Vallarhverfi. Keppt verður í tveimur aldursflokkum og veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin.
Í karlaflokki er búist við harðri keppni milli Hákonar Hrafns Sigurðssonar sigurvegara frá því í fyrra og Stefáns Guðmundssonar en þeir koma báðir úr 3SH, segir í tilkynningu.
Í kvennaflokki hefur Birna Björnsdóttir úr 3SH sigrað í öllum keppnum sumarsins og það verður spennandi að sjá hvort einhver nær að ógna velgengni hennar. Verðlaun eru veitt fyrir besta tíma karla og kvenna í keppninni auk fjölda útdráttarverðlauna. Einnig er í boði liðakeppni þar sem fyrsta lið fær verðlaun - Nánar hér.
Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, er meðal þátttakenda í liðakeppni í „Hálfum járnkarli“. Róbert segir keppnina lið í áheitasöfnun innan Alvogen þar sem samstarfsmenn um allan heim safni fjármunum til stuðnings hjálparstarfi í Afríku. „Eftir áskorun samstarfsfélaga fyrir ári hóf ég að æfa og keppa í þríþraut og við söfnuðum um 12 milljónum króna. Þetta gekk vonum framar og við ákváðum að endurtaka þetta í ár. Þessi keppni er lokaáfangi í söfnuninni sem nær til 20 landa þar sem vinnufélagar og samstarfsfyrirtæki hafa lagt okkur lið. Við höfum nú þegar safnað um 13 milljónum króna sem mun að mestu renna til Unicef vegna neyðarhjálpar og menntunarverkefna í Afríku,“ er haft eftir Róberti í fréttatilkynningu.
Þetta er í annað skiptið sem Alvogen safnar fjármunum fyrir hjálparsamstök í Afríku en á síðasta ári söfnuðust um 12 milljónir króna sem fóru til Rauða krossins. Þeir fjármunir voru nýttir vegna neyðarhjálpar í Sómalíu og til rekstrar Verkmenntaskóla í Sierra Leone. Á þessu ári verður fjármunum úthlutað til Unicef á Íslandi, ásamt því sem Alvogen mun áfram styðja við menntunarverkefni Rauða krossins.