„Talsmaður ráðuneytisins sagði við mig í morgun að hún færi ekki úr landi á mánudaginn, en ég gat ekki fengið það staðfest skriflega. Þannig að við ætlum að fara með hana í felur,“ segir Ellert Högni Jónsson, fósturfaðir Romylyn Patty Faigane, filippseyskrar stúlku sem ekki fær dvalarleyfi hér á landi.
Móðir Romylyn hefur búið hér á landi frá árinu 2005 og allan þann tíma hefur fjölskyldan reynt að fá dvalarleyfi fyrir hana. Hún á einnig systur hér á landi. Romylyn hefur verið hér sem ferðamaður frá því í desember, umsókn fjölskyldunnar um dvalarleyfi fyrir hana hefur ekki verið afgreidd og því var henni gert að fara úr landi í síðsta lagi næstkomandi mánudag.
Fjölskylda hennar kærði þann úrskurð til innanríkisráðuneytisins og fengu þau svör að málið yrði tekið fyrir í fyrsta lagi eftir 6-7 mánuði. „En í morgun var mér sagt að það myndi taka 6-12 mánuði vegna þess að þar séu svo mörg verkefni og mannekla,“ segir Ellert Högni.
Mega stinga mér í grjótið
Hann segir að fjölskyldunni líði ekkert betur með að hafa fengið þessa munnlegu staðfestingu í morgun. „Ég treysti þessum stofnunum ekki og ég get ekki tekið mark á þessu fyrr en ég fær staðfestingu. Það eina sem við getum gert er að fara með hana í felur. Þeir mega þá bara stinga mér í grjótið, það gerir ekkert til.“
Fjölmargir hafa haft samband við fjölskylduna, bæði einstaklingar og félagasamtök og lýst yfir stuðningi við þau. „Margt af þessu fólki er bláókunnugt fólk og við kunnum virkilega að meta þennan stuðning. Það eru allir svo hissa á þessu máli.“