Færeysk og grænlensk fiskiskip hafa oft landað makríl hér á undanförnum árum, að sögn Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar. Hann vísar til skýrslna Fiskistofu máli sínu til stuðnings þar sem landanir erlendra skipa í íslenskum höfnum á undanförnum árum eru skráðar.
Grænlenska skipið Erika fékk ekki að landa hér makríl úr grænlensku lögsögunni fyrr í vikunni og var ákvörðunin studd lögum frá 1998 um að erlend skip megi ekki landa hér afla úr nytjastofnum sem ekki hefur verið samið um. Gunnþór sagði athyglisvert að skoða hvernig og hvenær fyrrgreindu lagaákvæði hefði verið beitt hingað til.
„Þetta hefur aldrei komið upp áður,“ sagði Gunnþór. „Auðvitað er þetta ekkert annað en makríldeilan.“
Hann sagði helst mega ætla að Íslendingar geti ekki unnt Grænlendingum þess að nýta makrílinn í sinni lögsögu. Þó hafi íslensk skip getað veitt þar makríl og landað hér á landi undanfarið.
Gunnþór sagðist ekki heldur skilja hvers vegna verið sé að koma í veg fyrir að íslenskt landverkafólk fái að vinna aflann sem erlend skip vilja landa hér.
„Þessi taugatitringur gagnvart Evrópusambandinu, um að við megum ekki veiða þennan fisk, er óþolandi,“ segir Runólfur Guðmundsson, stjórnarformaður G. Run í Grundarfirði, og bætir við: „Þetta máttleysi stjórnvalda, að standa ekki í lappirnar gagnvart þessum kröfum, er algerlega út úr kú.“
Sjávariðjan í Rifi veiðir einnig og vinnur makríl. „Ég skil ekki hvernig mönnum dettur það í hug að taka af okkur fisk sem fer inn í allar víkur og hafnir landsins. Það er svo fjarstæðukennt að ekki tekur því að tala um það,“ segir Kristinn Jón Friðþjófsson útgerðarmaður.