„Hann skelfur ennþá,“ segir fjölskyldufaðir úr Garðabæ um lítinn kettling sem laumaðist undir bíl fjölskyldunnar skömmu áður en hún lagði af stað til Akureyrar í gær. „Hann á allavega átta líf eftir,“ segir Sófus Gústavsson um laumukisann.
Hann segir að kettlingurinn hafi látið á sér kræla þegar fjölskyldan var að búa sig undir ferðalagið seinni partinn í gær.
„Þegar við erum að raða í bílinn þá sé ég lítinn kettling koma labbandi og hann hoppar undir bílinn hjá mér. Ég sagði í gamni við krakkana að við ætluðum ekki að taka laumufarþega með okkur.“
Fjölskyldan gerði nokkrar tilraunir til að fæla kettlinginn í burtu en án árangurs. Loks datt Sófusi í hug að sækja garðslönguna.
„Ég sprautaði undir bílinn og hélt að þetta hefði nú aldeilis dugað og hann væri bara farinn,“ segir Sófus. Kisi hafi ekki sést þegar hann leit undir bílinn. Við svo búið hélt fjölskyldan áfram að búa sig og skömmu síðar lagði hún af stað norður til Akureyrar.
Sófus segir að fjölskyldan hafi stoppað fimm sinnum á leiðinni norður og hvert stopp hafi varað í um það bil hálftíma.
„Þegar við erum komin á fimmta stoppið, sem er tjaldsvæðið hérna á Akureyri [við Þórunnarstræti] þá sér elsta dóttir mín köttinn hoppa undan bílnum og hann labbar af stað í burtu frá bílnum. Hún fór strax á eftir honum og náði honum. Hann var mjög hræddur og skelkaður,“ segir Sófus og bætir við að kisi hafi bitið dóttur sína í fingurinn þannig að það sá á henni.
Hann tekur hins vegar fram að ekki sé um alvarleg meiðsl að ræða. Farið var með stúlkuna á sjúkrahús þar sem sárið var sótthreinsað og plástur settur á fingurinn.
Sófusi þykir undarlegt að kötturinn skuli aldrei hafa stokkið undan bílnum þegar tækifærið gafst. Það þykir þó líklegt að hann hafi einfaldlega verið stjarfur af hræðslu.
„Það er ótrúlegt að hann hafi setið undir bílnum allan þennan tíma,“ segir Sófus, en ferðalagið tók um níu tíma. Aðspurður segir Sófus að kisi hafi sloppið að mestu ómeiddur, en hann er með minniháttar brunasár á eyrunum.
Kötturinn er í góðu yfirlæti hjá fjölskyldunni. „Starfsfólkið í Hagkaup var svo elskulegt að gefa okkur kassa og fullt af Morgunblöðum sem við gátum sett undir hann. Hann gat hvílt sig í nótt,“ segir Sófus og bætir við að kötturinn sé enn taugatrekktur og hafi aðallega verið í fangi á elstu dótturinnar.
Kisi er hins vegar ómerktur og vill fjölskyldan því hafa uppi á eigandanum.
Sófus trúir ekki öðru en að kettlingurinn, sem hann telur að sé högni, sé úr Garðabæ og líklega sé hann ekki eldri en tveggja mánaða. „Við erum búin að hringja í nokkra nágranna, en enginn kannast við hann og enginn man eftir að hafa séð hann. Við erum því alveg ráðþrota yfir því hver á hann,“ segir Sófus.
Fjölskyldan hyggst snúa aftur heim á sunnudag eða mánudag og vonast til að þá verði réttur eigandi búinn að gefa sig fram.