„Lítum ekki á okkur sem einhvers konar ræningja“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Ómar

„Við lítum ekki á okkur sem einhvers konar ræningja. Nafnið þýðir miklu meira í dag í nútímahugmyndafræði og hefur töluvert meiri blæbrigðamun,“ segir Birgitta Jónsdóttir alþingismaður, en hún  er í hópi þeirra sem vinna nú að stofnun nýs stjórnmálaflokks. Stjórnmálaflokkurinn sem til stendur að stofna á rætur sínar að rekja til hinna svonefndu „pirate-flokka“ sem stofnaðir hafa verið víðsvegar um heim og hefur heitið verið íslenskað sem „píratapartí“. Umræða hefur spunnist um nafn flokksins á netinu og einhverjir velta fyrir sér hvort „sjóræningjaflokkur“ sé betri þýðing en „píratapartí“.

Nafnið ekki aðalmálið

Birgitta segir nafnið á hinu nýja flokki ekki vera aðalmálið og segir enn vera nokkra mánuði í það að flokkurinn verði formlega stofnaður. „Ég held að fólk geti alveg slakað aðeins á varðandi nafnið sjálft. Ég held að þessar áhyggjur af nafninu séu mjög ótímabærar. Aðalatriðið er að vinna stefnumálin vel,“ segir Birgitta, en hún segir önnur nöfn koma til greina og útilokar ekki neitt í þeim efnum.

 „Mér finnst nöfn á öllum flokkum vera asnaleg. Öll þessi nöfn eru hrikalega hallærisleg og ég held að þannig eigi það alltaf eftir að vera. Við endum kannski bara í því að vera kölluð PP-Flokkurinn. Ég er líka meira í litunum. Við erum ekki svona appelsínugul eins og sumir,“ segir Birgitta.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert