Ingólfur Guðnason, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Engi í Bláskógabyggð, hefur verið að þreifa fyrir sér með ræktun á asísku grænmeti. Ræktunin er að töluverðum hluta enn á tilraunastigi en þó hefur hann selt vörur sínar til verslana sem og á markaði í Engi.
„Þetta byrjaði sem tilraun fyrir þremur árum. Síðan hefur tegundunum fækkað því sumar þeirra er ekki hægt að rækta hér á landi. Við höfum náð árangri með nokkrar tegundir, t.d. tælenska basiliku, tat soi sem er notuð á svipaðan hátt og spínat og kai lan sem minnir á spergilkál. Einnig höfum við náð árangri með pak choy sem er blaðkál og er einna vinsælast hjá okkur af þessum tegundum.“
Ingólfur segist hafa rekið sig á ýmsar hindranir í tilraunum sínum og dagslengdin hafi haft sín áhrif. „Þar sem þessar tegundir eru ræktaðir austur frá, sérstaklega við miðbaug, er daglengdin allt önnur. Plönturnar eru aðlagaðar því og eiga því til að blómstra of snemma hér á landi þar sem dagurinn er mun lengri. Það er stærsta vandamálið og hefur krafist mikilla prófana.“
Að sögn Ingólfs er töluverður áhugi á þessum tegundum hér á landi og Íslendingar sem og Asíubúar hafa sýnt þeim þó nokkra forvitni. „Við höfum verið að selja þessar afurðir í verslanir s.s. Frú Berglaugu, Yggdrasil og Melabúðina. Einnig seljum við grænmetið á markaði hér á Engi. Asíubúarnir eru áhugasamir og við reynum að notfæra okkur þekkingu þeirra og spyrjum þá ýmissa spurninga þegar þeir koma.“