Fjórar líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Skömmu eftir miðnætti réðst karlmaður á 15 ára dreng á Grundarstíg í Reykjavík. Drengurinn hafði verið að krota á stöðumæla þegar „stór og þrekinn maður“ veittist að piltinum. Margir urðu vitni að þessu. Maðurinn flúði síðan af vettvangi á gylltum fólksbíl.
Um klukkan hálffjögur var tilkynnt að rúmlega tvítugur karlmaður hefði fengið áverka á höfði eftir átök í Bankastræti. Sá sem varð fyrir árásinni telur sig kannast við árásarmanninn sem hafði flúið á brott þegar lögregla kom á vettvang.
Um klukkan fjögur veittist hópur fólks að pari sem var á gangi við Selvogsgrunn. Árásin var gróf og virtist með öllu tilefnislaus. Tvær ungar konur gista fangageymslu vegna málsins.
Skömmu eftir klukkan fimm óskaði par um tvítugt eftir aðstoð lögreglu að skemmtistað á Hverfisgötu. Parið kvaðst hafa lent í átökum við dyraverði. Þeim mun hafa verið meinaður aðgangur að skemmtistaðnum og hugðust þau þá komast inn um glugga á bakhlið hússins og voru stöðvuð við það athæfi. Stúlkan telur að hún sé handleggsbrotin.