Þorskkvóti í Barentshafi mun að öllum líkindum aukast um hátt í 190 þúsund tonn á næsta veiðiári, en slík magnaukning gæti þýtt allt að 25% verðlækkun á þorski á mörkuðum.
Af þeim sökum er hætt við því að væntingar um að ríflega 18 þúsund tonna aukning í þorskafla Íslendinga eigi eftir að skila sér í 8,4 milljarða verðmætaaukningu fyrir þjóðarbúið verði ekki að veruleika.
Jón Þrándur Stefánsson hjá Markó Partners, sem er ráðgjafarfyrirtæki á sviði sjávarútvegs, segir í Morgunblaðinu í dag að um sé að ræða allt að 22% aukningu í þorskmagni sem gæti farið inn á markaði. „Sú verðmætaaukning, sem vonast hefur verið eftir með meiri þorskkvóta, kemur því líklega ekki til með að skila sér að fullu. Magnaukning á þorski umfram 2% hefur leitt til verðlækkunar á síðustu tólf árum.“