Skátar þreyttir á að bíða eftir óveðrinu

Vel hefur gengið á landsmóti skáta, sem hófst í gær …
Vel hefur gengið á landsmóti skáta, sem hófst í gær á Úlfljótsvatni. ljósmynd/Baldur Árnason

„Við erum að bíða eftir óveðrinu, og erum eiginlega orðnir þreyttir á biðinni!“ segir Bragi Björnsson skátahöfðingi um veðrið á landsmóti skáta, en spáð hafði verið slagviðri um helgina. Hann segir að gengið hafi vel hingað til á landsmótinu sem hófst í gær. Mótið verður formlega sett á morgun.

„Hér er búið að vera blíðskaparveður, nema núna rignir, en það bleytir vel í sem er gott fyrir gróðurinn,“ segir Bragi sem var staddur í fjölskyldubúðunum á Úlfljótsvatni. Þar voru komnar um 50 fjölskyldur sem væru að koma sér fyrir með fellihýsi og tjöld. Bragi áætlaði að um þúsund manns væru komnir á landsmótssvæðið í dag, einkum eldri skátar og erlendir gestir úr skátahreyfingunni. Hann segir að menn séu undirbúnir fyrir veðrið sem spáð var, og að fylgst sé vel með veðurspánni. „Hér gengur allt eftir áætlun, það er ótrúlega góð stemning og gaman hér. Það gengur eiginlega bara of vel,“ segir Bragi og hlær.

Bragi gerir ráð fyrir að á morgun verði komnir um 3.000 manns til Úlfljótsvatns, en landsmótið verður formlega sett þá. Um næstu helgi, þegar mest verður um að vera, er svo gert ráð fyrir að á bilinu 5.000-6.000 manns muni vera á landsmótinu. Á meðal þeirra sem komu til landsmótsins í dag voru tveir hópar af hjólreiðamönnum úr Reykjavík og gera má ráð fyrir að einhverjir skátar muni koma á hestbaki til Úlfljótsvatns.

Þessi hópur kom hjólandi á landsmót skáta úr Reykjavík.
Þessi hópur kom hjólandi á landsmót skáta úr Reykjavík. Ljósmynd/ Baldur Árnason
Verið að setja upp tjald í skátabúðunum á Úlfljótsvatni.
Verið að setja upp tjald í skátabúðunum á Úlfljótsvatni. Ljósmynd/Baldur Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert