Heimildarmynd um fjárleitir

Frá fjárleitum á Rangárvallaafrétti. Fé rekið yfir brú á Markarfljóti …
Frá fjárleitum á Rangárvallaafrétti. Fé rekið yfir brú á Markarfljóti við Krók. Ljósmynd/Guðmundur Árnason

Í haust verða tökur á nýrri heimildarmynd um fjárleitir á Rangárvallaafrétti, en Rangvellingar hafa farið með fé á afréttinn síðan 1892, að undanskildum nokkrum árum vegna eldgosa og niðurskurðar af sökum sauðfjárveiki.

Það er Guðmundur Árnason á Hellu sem er upphafsmaður og framleiðandi heimildarmyndarinnar og stendur undirbúningur nú á fullu yfir. Guðmundur hefur í sex ár farið sem smali á Rangárvallafrétt. Hann segir undirbúninginn ganga vel og að stefnt sé að því að myndin verði í kringum 50 mínútur.

Kvikmyndatökur fara fram í haustleitum

Guðmundur segir að byrjað verði að kvikmynda í haustferðinni í ár. Síðan verði unnið úr þeim tökum auk ýmiskonar heimildaöflunar. Guðmundur reiknar með að ferlið í allt geti tekið tvö ár. „Maður má ekki hugsa of skammsýnt, þetta tekur tíma,“ sagði Guðmundur

Guðmundur leitar nú fjármagns til að kosta framleiðsluna sem hann áætlar að verði ein milljón króna í heildina. Nú nýverið ákvað hreppsráð Rangárþings ytra að styrkja verkefnið um 100.000 krónur með kaupum á tíu eintökum af myndinni þegar hún kemur úr framleiðslu.

„Í haust fer fram 120. ár þessara leita og langar mig að standa fyrir heimildarmynd um þessar merkilegu leitir. Ég hef talað beint við nokkra aðila, gamla heimamenn og sjónvarpsfólk sem eru til í að taka upp og sjá um myndatökur þessa viku sem fjallferðin er en til þess þarf fjármagn,“ sagði Guðmundur.

Fjárleitirnar í eðli sínu lítið breyst en bylting í aðbúnaði

Hann segir fjárleitir á afréttinum í eðli sínu lítið hafa breyst hvað varðar smölunina sjálfa. Enn sé smalað á hestum og fótgangandi, en að húsakostur og aðbúnaður smala og hrossa hafi þó mikið breyst. Nú fylgi bíll með alla ferðina og komin séu girðingarhólf bæði fyrir hross og eins fyrir sauðfé meðan á leitum stendur.

Fé rennur fram Sátu í átt að Krók. Markarfljót sést …
Fé rennur fram Sátu í átt að Krók. Markarfljót sést til vinstri og Stóra-Grænafjall á Fljótshlíðarafrétti handan fljótsins. Ljósmynd/Guðmundur Árnason
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti.
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti. Ljósmynd/Guðmundur Árnason
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti. Ljósártungur í baksýn.
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti. Ljósártungur í baksýn. Ljósmynd/Guðmundur Árnason
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti.
Fjárleitir á Rangárvallaafrétti. Ljósmynd/Guðmundur Árnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert