Stórsigur eftir alvarlegt slys

Salka Heimisdóttir með kúluna á æfingunni fyrir helgi.
Salka Heimisdóttir með kúluna á æfingunni fyrir helgi. mbl.is/Sigurður Ægisson

Aðeins átta mánuðir eru síðan Salka Heimisdóttir, fjórtán ára, stórslasaðist í alvarlegu umferðarslysi á Siglufirði. Endurhæfingin hefur gengið vonum framar og batinn raunar ævintýri líkastur. Salka fór á sína fyrstu frjálsíþróttaæfingu fyrir helgi og stefnir ótrauð að því að keppa á ný.

Slysið hörmulega varð á Langeyrarvegi á Siglufirði að kvöldi 16. nóvember síðastliðins. Salka ásamt fleiri krökkum fór í félagsmiðstöð í Ólafsfirði. Farið var með langferðabíl og þegar komið var aftur til Siglufjarðar gengu Salka og tvær vinkonur hennar út úr honum og hugðust fara yfir götuna.

Kom þá aðvífandi fólksbifreið og urðu stúlkurnar allar fyrir henni. Ein stúlknanna lést af sárum sínum, Salka slasaðist alvarlega en þriðja stúlkan slapp betur.

Salka, sem var valin efnilegasta frjálsíþróttastúlkan í flokki 13-18 ára við val á íþróttamanni Fjallabyggðar árið 2011, margbrotnaði í slysinu. „Ég mjaðmagrindarbrotnaði, fótbrotnaði við hné, olnbogabrotnaði, upphandleggsbrotnaði og svo brotnuðu þrír fingur. Allt á hægri hendi,“ segir Salka sem man slysið sjálft óljóst en rankaði við sér þar sem hún lá á jörðinni sárkvalin.

Hún segist ekki viss um hver kom fyrstur að henni en hún muni til þess að kona ein úr skóla hennar hafi setið með henni um stund. „Svo kom afi minn þarna að og ég spurði hann hvort það yrði ekki allt í lagi.“

Stórsigur að mæta á fyrstu æfinguna

Salka, sem er dóttir Jónu Guðnýjar Jónsdóttur og Heimis Hólmgeirssonar, þurfti að fara í nokkrar aðgerðir á Sjúkrahúsi Akureyrar og í kjölfarið stranga sjúkraþjálfun. Þótt hún sé ekki komin í keppnisform má engu að síður segja að hún hafi unnið stórsigur þegar hún mætti á sína fyrstu frjálsíþróttaæfingu fyrir helgi. Undir það tekur þjálfari hennar, Þórarinn Hannesson. „Já, þetta er stórkostlegur sigur og það var ólýsanleg tilfinning að sjá hana á vellinum að nýju. Manni vöknaði um augun.“

Þó svo að um fyrstu æfinguna væri að ræða hélt Salka ekki aftur af sér. Hún kastaði kúlu, kringlu og spjóti, skokkaði og gerði bæði hlaup- og kraftæfingar. Hún segist annars best í grindahlaupi og kúluvarpi.

Þórarinn er tengdur fjölskyldunni og hefur því getað fylgst með endurhæfingarferlinu. Hann segir það engu að síður hafa komið sér mikið á óvart hversu vel Salka stóð sig á fyrstu æfingunni, hversu mikill batinn er og góður. Hann segir engan hafa órað fyrir því fyrst eftir slysið að hún kæmist aftur út á völl, hvað þá svona snemma. „Maður vonaði eiginlega bara að hún gæti gengið aftur.“

Margt hefur hjálpast að og orðið til þess að bati Sölku er jafngóður og raun ber vitni. Sjálf segir hún jákvæðnina hafa skilað sér langt. Þórarinn nefnir það einnig að hún var í afar góðu líkamlegu formi þegar slysið varð. „Hún er mikil íþróttakona og æfði bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Læknarnir tóku fram að það hefði hjálpað mikið til við hvað hún var fljót að ná sér.“

Hann dregur þó ekki úr þætti læknanna, sjúkraþjálfara og ekki síst samfélagsins á Siglufirði. „Hún fékk ótrúlega góða þjónustu og viðmót frá upphafi. Svo hefur hún tekið þessu af miklu æðruleysi og dugnaði og það hefur hjálpað til. Ekki síst fékk hún ómetanlegan stuðning og það sýndi sig hvað það er gott að búa á svona litlum stað, þar sem allir þekkjast og hjálpast að þegar eitthvað bjátar á. Það var ótrúlegur stuðningur frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Bæði fjárhagslegur og tilfinningalegur stuðningur sem fjölskyldan fann fyrir.“

Stefnir að því að keppa á ný

Sjálf segist Salka næstum því búin að ná sér að fullu en það hafi verið afar erfitt að geta ekki hreyft sig að vild undanfarna mánuði. Þeim mun meiri ánægja er því að vera komin aftur á frjálsíþróttavöllinn. En þótt líkaminn sé allur að braggast skilur slysið eftir sig skarð sem aldrei verður fyllt og ör sem aldrei grær. „Það varð því ekki aðeins líkamlegt heldur einnig andlegt áfall,“ segir Þórarinn en vinkona Sölku og jafnaldra, Elva Ýr Óskarsdóttir, lést í slysinu. „En það er engu að síður ótrúlegt að sjá hvar hún er stödd í lífinu í dag.“

Salka segist ætla að hafa knattspyrnuskóna uppi á hillu enn um sinn en einbeita sér frekar að frjálsum íþróttum. Og hún er ekki í vafa um það hvert hún stefnir. „Ég ætla að vera áfram í frjálsum og keppa í sem flestum greinum.“

Salka Heimisdóttir og Þórarinn Hannesson, þjálfari hennar.
Salka Heimisdóttir og Þórarinn Hannesson, þjálfari hennar. mbl.is/Sigurður Ægisson
Salka fermdist á hvítasunnudag 27. maí 2012 í Siglufjarðarkirkju. Hér …
Salka fermdist á hvítasunnudag 27. maí 2012 í Siglufjarðarkirkju. Hér er hún á fermingardaginn ásamt fermingarsystkinum sínum. Ljósmynd/Sigurður Ægisson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert