Ein fjölskylda missti nær allt

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. www.mats.is

Rauði krossinn í Vestur-Barðastrandarsýslu aðstoðar nú fjölskyldur á Tálknafirði í kjölfar eldsvoða sem varð í fjölbýlishúsi í bænum í gærkvöldi. Aðstoðin felst meðal annars í að útvega fólkinu föt, hreinlætisvörur og aðrar nauðsynjar auk þess að veita því sálrænan stuðning.

Í húsinu eru fjórar íbúðir og var fólk í þremur þeirra þegar eldurinn kom upp. Íbúð og innbú fjögurra manna fjölskyldu fór verst í brunanum og missti hún nær allt sitt, að því er RKÍ segir í tilkynningu.

„Sú fjölskylda og önnur fjögurra manna fjölskylda hafa fengið húsaskjól annars vegar hjá vinafólki og hins vegar hjá atvinnuveitenda annarrar fjölskyldunnar. Ungur maður sem var í þriðju íbúðinni fékk húsaskjól á heimili foreldra sinna í bænum.

Allar íbúðirnar voru rýmdar vegna brunans í gærkvöldi og er unnið að reykræstun.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Tálknafirði brugðust við strax og ljóst var um brunann í gærkvöldi og hófu aðstoð við það fólk sem býr í húsinu. Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu veita fólkinu áframhaldandi aðstoð í vikunni, hitta þolendur og veita þeim ráðgjöf og stuðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert