Eldur logar í tveimur bílum eftir árekstur sem varð á Hringbraut til móts við bensínstöð N1 í Vatnsmýri. Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins er unnið að því að slökkva eldinn en ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu. Engar upplýsingar liggja enn fyrir um hvort meiðsl hafi orðið á fólki.
Að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum logar í báðum bílunum og er lögreglan búin að loka svæði umhverfis slysstaðinn, m.a. Njarðargötunni og hluta af Hringbrautinni. Margir slökkvibílar og lögreglubílar eru á staðnum.
„Báðir bílarnir eru gjörónýtir, rústir einar,“ segir blaðamaður mbl.is. Lögreglan vaktar svæðið en sjúkrabílar eru farnir af staðnum.