Forstjóri Útlendingastofnunnar: „Þetta er ekki boðlegt“

Útlendingastofnun er gert ókleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu vegna fjárskorts. Hælisleitendum hér á landi fjölgar ár frá ári og í síðustu viku bárust átta umsóknir um hæli. Biðtími fólksins er óásættanlegur og starfsfólk er undir gríðarlegu álagi. Þetta segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.

„Miðað við stöðuna núna erum við komin að þeim tímapunkti að við þurfum að lágmarki fjóra lögfræðinga. Ef þetta ástand helst óbreytt út þetta ár, þá erum við að tala um fleiri. Því fyrr sem brugðist er við, því ódýrara verður það,“ segir Kristín. „Ég vil sjá þessa stofnun að minnsta kosti 30 manna, ekki 20 manna eins og hún er í dag.“

Nokkuð hefur verið um það að hælisleitendur hafi reynt  að reyna að komast úr landi á ýmsan hátt.  Ef þeir ekki vilja vera hér, hvers vegna mega þeir ekki fara úr landi?  „Til þess að fara úr landi á löglegan hátt þarf að hafa skilríki. Fæstir hælisleitendur framvísa skilríkjum þegar þeir koma.“ 

En ef fólkið er ekki með skilríki, hvernig kemst það þá hingað?
„Það er að koma á fölsuðum skilríkjum. Svo er sá möguleiki fyrir hendi að það hafi og eigi sín eigin skilríki, sem hverfa síðan eftir komu þannig að við sjáum þau ekki,“ segir Kristín.

Ekkert bólar á fjármagni

Árið 2010 sótti 51 um hæli hér á landi, í fyrra voru þeir 76 og 50 hafa sótt um hæli hér  það sem af er þessu ári. Innanríkisráðherra lagði til  í vor að fjárframlög til Útlendingastofnunar yrðu aukin svo hægt yrði að flýta málsmeðferð hælisleitenda hér á landi og mæta fjölgun verkefna. Ekkert bólar á fjármagninu.

„Það er því miður ekkert fjármagn komið . Ég er að vona að við fáum svör í júlí eða ágúst. Þetta hefur þá sérstöðu að þessi sparnaður ríkisins á Útlendingastofnun kostar samfélagið miklu meira en í er verið að leggja,“segir Kristín.

Einfalt reikningsdæmi

„Íslenska ríkið kostar uppihald og umönnun hælisleitenda og sú umönnun er miklu dýrari en launakostnaður eins starfsmanns og einn starfsmaður getur alltaf klárað fleiri en eitt mál í mánuði. Þetta er einfalt reikningsdæmi, þannig að því fleiri starfsmenn sem sinna þessu, því ódýrara verður þetta fyrir ríkið og öllum líður betur, bæði umsækjendum og starfsfólki.“

En gegnumgangandi á línuna eru allir að bíða allt of lengi. Við erum að tala um efnismeðferðarmál , komin langt yfir árið. Við erum með mál sem eru orðin 16-17 mánaða gömul og ef fer sem horfir, að engin breyting verði á, þá erum við að tala um málsmeðferð sem fer yfir tvö ár. Það er ekki boðlegt. Draumastaðan er að þessari stofnun verði veitt það fjármagn að hún standi undir því hlutverki sem hún hefur. Hún er þjónustustofnun og á sama tíma útvörður Íslands gagnvart erlendu fólki.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka