Árni Johnsen blés til pítsuveislu

Árni Johnsen blés í dag til pítsuveislu fyrir ungmenni með skerta starfsgetu sem í sumar hafa unnið við gróðursetningu og fegrun skóglendis í Breiðholtshvarfi, með miðstöð við Elliðaárdalinn. 

„Ég hef stundum gert þetta, boðið þeim í pítsuveislu í lok júlí í virðingarskyni við þau og þeirra vinnu. Þetta hefur mælst vel fyrir og þau hafa haft gaman að þessu,“ segir Árni. „Þau eru hörkudugleg og samviskusöm og vinna sína vinnu vel og það er gaman að geta gert eitthvað fyrir þau,“ bætir hann við.

„Þau taka sér þá hlé frá störfum og borða pítsu og drekka kók og svo syngjum við saman smávegis brekkusöng. Þau syngja fyrir mig af fullum krafti, hér í dag sungu tveir krakkar fyrir mig Rósina alveg gullfallega. Svo sungu fleiri einsöng,“ segir Árni en dagsdaglega vinna krakkarnir að hreinsun skóglendisins, lagfæringu göngustíga og grisjun skógarins svo hann verði greiðfær fyrir almenning. 

„Þetta er svo yndislega einlægir krakkar og ofsalega skemmtilegt að kynnast þeim,“segir Árni en pítsuveislan er haldin í júlí þau ár sem hann er staddur í Reykjavík. 

Umsjónarkona hópsins er Theodóra Guðrún Rafnsdóttir, sem fyrr á árinu var útnefnd Reykvíkingur ársins 2012 fyrir starf sitt með ungmennum með skerta starfsgetu, en hún hefur unnið slíkt starf í meira en tvo áratugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert